Háskólar

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 15:20:01 (2549)

1997-12-17 15:20:01# 122. lþ. 46.7 fundur 165. mál: #A háskólar# frv. 136/1997, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur

[15:20]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessi svör. Mér var alveg ljóst, enda sagði ég það sjálfur, að hér er ekki gerð afdráttarlaus krafa um stúdentspróf eða sambærilegt próf, heldur er opnað fyrir annars konar mat. Ég hygg þó að hæstv. ráðherra hafi orðið á mismæli þegar hann talaði um að 2. mgr. væri til að þrengja 1. gr. Ég lít alls ekki svo á. Það er 3. mgr. sem þrengir þetta með heimildinni til að setja á inntökupróf eða stöðupróf. Ég nefndi það í mínu innleggi að 2. mgr. má skoða sem þrengingu, en það má líka skoða hana sem opnun með vísan til þess að víða er þróunin sú að háskólar erlendis sem við viljum bera okkur saman við, eru að opna sínar dyr og gættir þannig að ekkert síður má líta á hana sem opnun.

Ég fagna þeirri yfirlýsingu ráðherrans að hann skilur og skynjar sinn vitjunartíma á þann veg að háskólinn sé að opna sínar dyr fyrir æ fleirum og það er fagnaðarefni. Ég vil hins vegar spyrja beint þannig að ekkert fari á milli mála: Er það skoðun ráðherrans að til greina komi, til að mynda, að einstakir skólar setji reglur sem geti hljóðað eitthvað á þá leiðina að allir þeir einstaklingar sem hafa náð tilskildum aldri geti fengið aðgang að t.d. Háskóla Íslands svo ég tali sérstaklega um hann, svipað því og ég held og trúi og eftir því sem ég veit best, að gerist í háskólum til að mynda í Danmörku og gott ef ekki í Svíþjóð. Finnst hæstv. ráðherra koma til álita að einstakir skólar geti tekið skref í þá áttina?