Háskólar

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 15:21:52 (2550)

1997-12-17 15:21:52# 122. lþ. 46.7 fundur 165. mál: #A háskólar# frv. 136/1997, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur

[15:21]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði að 2. mgr. 6. gr. veitti tryggingu, hún væri ekki þrenging en veitti tryggingu fyrir því að skólarnir gengju ekki of langt í að opna dyr sínar án þess að setja einhver lágmarksskilyrði. Það er sem sagt unnt að ganga að skólanum og segja: Þið hleypið fólki inn án þess að það taki stúdentspróf. Við hvað miðið þið? Og þá er sett í 2. mgr. viðmiðun sem skólanum ber að hafa í huga og þeir sem veita skólanum eftirlit og aðhald geta líka stuðst við.

Ég er ekki þeirrar skoðunar að skynsamlegra sé að fara þá leið að setja inn ákveðin aldursmörk í grein eins og þessa. Ég tel að hún sé með það sveigjanlegu orðalagi að skólarnir hafi það frelsi sem nauðsynlegt er fyrir þá til að geta sinnt þeim óskum nemenda sem til þeirra koma. Það er eitt af megineinkennum þessa frv. að veita skólunum aukið frelsi og aukna sjálfsstjórn miðað við ákveðnar grunnreglur og þess vegna er það mikill misskilningu þegar því er haldið fram að þetta frv. einkennist af sérstökum miðstjórnar- eða miðstýringar- eða ofstjórnartilhneigingum. Þvert á móti er verið að opna dyr skólanna með nýjum hætti eins og fram hefur komið hjá hv. þm. og veita skólunum sjálfum aukið frelsi til að taka ákvarðanir um innri málefni sín.