Háskólar

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 15:23:30 (2551)

1997-12-17 15:23:30# 122. lþ. 46.7 fundur 165. mál: #A háskólar# frv. 136/1997, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur

[15:23]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því út af fyrir sig að hæstv. ráðherra skuli vera þeirrar skoðunar sem hann lýsti í almennum orðum. Ég skildi hann þannig að hann vildi að háskólarnir væru opnar stofnanir og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum væru þeir fyrir alla þá sem þangað ættu erindi eða vildu sækja.

Ég vil árétta það sem ég sagði áðan að 2. mgr. 6. gr. er vissulega ákveðin trygging. Það er alveg hárrétt. En hún þarf hins vegar ekki að vera þrenging. Hún getur allt eins verið opnun, með vísan til venju og hvernig gangur mála er í nágrannalöndum okkar. Mínar hugmyndir og mín spurning varðandi aldursmörk var ekki á þann veginn að ég vildi taka allt annað út úr þessum ákvæðum og binda mig eingöngu við aldur. Ég hafði fyrst og síðast í huga að að þessum almennu skilyrðum uppfylltum væru viðbótarákvæði um að þeir sem væru t.d. eldri en 50 ára, eða hvað það nú er, gætu verið nokkuð vissir um að þeir ættu þar með aðkomu að háskóla. Ég endurtek það sem mér hefur verið tjáð að þannig þekkja menn sambærileg skólastig í okkar nágrannalöndum

Ég ætla ekki að orðlengja þetta, virðulegi forseti, en ég tek undir það að ég vil sjálfstæði skólanna sem allra mest og ef það á við í þessu tilfelli, sem ég hygg að sé, að þeir njóti hér sjálfræðis, þá er það gott og blessað. Það á að vísu ekki við í öðrum greinum þessa frv. En sjálfdæmi og sjálfstæði skólanna getur einmitt í þessari grein snúist upp í andhverfu sína því það er auðvitað fjárveitingarvaldið sem skapar þessum skólum þann ramma sem þeir eru síðan nauðbeygðir til að fara eftir. Og 3. mgr. veit beint að því að ákveðnar deildir Háskóla Íslands eru nauðbeygðar til að setja á inntökupróf eða stöðupróf, einhvers konar síur, vegna þess að ekki eru nógu margir stólar í viðkomandi kennslustofum og ekki nógu miklir peningar til að halda úti kennslu.