Háskólar

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 15:26:03 (2552)

1997-12-17 15:26:03# 122. lþ. 46.7 fundur 165. mál: #A háskólar# frv. 136/1997, Frsm. meiri hluta SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur

[15:26]

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég hef gert ráðstafanir til þess að samningur sá sem undirritaður var á dögunum um einkaskóla og hv. þm. Svavar Gestsson nefndi í umræðunum áðan verði kynntur í hv. menntmn. á fundi síðar í dag og ég vænti þess þá líka að með því geti umræðum um háskólafrv. lokið í dag. Ég tel að ekkert nýtt hafi komið fram í því máli sem réttlæti annað. Auðvitað eru skiptar skoðanir um ýmislegt í frv. en það er nú reyndar ekkert óvanalegt á hinu háa Alþingi. Það hefur verið gott samkomulag um það í hv. menntmn. að ljúka þessu máli fyrir jól, ásamt kennaraháskólafrv. Það var samkomulag sem við gerðum í nefndinni í vor, til að koma til móts við óskir Háskóla Íslands sem vildi fá lengri tíma til að skoða málið.

Við 2. umr. voru ítarlega rædd ýmis atriði þessa frv. og ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða mjög um einstök ákvæði þess. Það er alveg ljóst að lengi hefur vantað rammalöggjöf um háskólastigið og eftir henni hefur verið kallað. Það er líka ljóst að almenn ánægja er innan háskólanna um þetta frv. þótt skiptar skoðanir séu um einstakar greinar. Ég vil sérstaklega leggja áherslu á að háskólarnir hafa fagnað framkomu frv. og lýst yfir stuðningi við það. Við teljum í meiri hluta menntmn. að við höfum komið ágætlega til móts við höfuðgagnrýni sem hefur komið frá Háskóla Íslands um 13. og 14. gr. og teljum að við höfum á þann hátt náð ákveðinni sátt um þær greinar. Ég tel að þessi lagasetning tryggi mjög vel faglegt og fjárhagslegt sjálfstæði háskólanna og muni verða lyftistöng fyrir háskólamenntun hér á landi í framtíðinni.