Háskólar

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 15:29:09 (2553)

1997-12-17 15:29:09# 122. lþ. 46.7 fundur 165. mál: #A háskólar# frv. 136/1997, SvG
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur

[15:29]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég tel mikilvægt það sem fram kom í máli hv. 3. þm. Reykn. að samningstextinn um einkaháskólann verði kynntur í menntmn. áður en þetta mál verður að lögum. Ég hef skilið það svo að atkvæðagreiðsla um málið muni ekki fara fram í dag, jafnvel þó að umræðunni ljúki í dag og tel að miklu máli skipti að samningurinn liggi fyrir áður en atkvæðagreiðslan fer fram. Ég tel að þar með sé komið til móts við þær óskir sem ég setti fram í ræðu minni fyrr í dag.

Varðandi það atriði sem fram kom hjá hv. formanni menntmn. að skiptar skoðanir væru um þetta mál eins og oft gerist, þá er það ekki rétt lýsing á veruleikanum. Það er miklu meiri ágreiningur um þetta mál en ég hygg að flestir átti sig á vegna þess að þetta er ágreiningur sem ekki snertir fyrirkomulagsatriði heldur grundvallaratriði. Og þau grundvallaratriði snerta hið akademíska frelsi háskólans, snerta skólagjöld, aðallega þessi tvö atriði sem birtast í 13., 14. og 19. gr. frv.

[15:30]

Ég tel því að háskalegt sé að gera of lítið úr þeim mikla ágreiningi sem upp hefur komið í þessu máli. Ég heyrði ekki betur en hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir lýsti því hér yfir áðan að hún myndi sitja hjá við atkvæðagreiðslu. Mér finnst það nokkuð athyglisvert vegna þess að miðað við þá stöðu sem hún hefur, þekkingu meðal annars á málefnum háskólans sem bendir tvímælalaust í þá átt sem við þekkjum nú eftir yfirferð á málinu, að miklar spurningar hafa vaknað í öllum háskólunum um þetta frv. Og það er beinlínis rangt að halda því fram að almenn ánægja sé með frv. í háskólanum. Það er beinlínis rangt. Staðreyndin er sú að ekki er hægt að finna þessum orðum neins staðar stað, um þessa almennu ánægju, vegna þess að fram kemur í umsögnum allra skólanna að margar spurningar vakna, í fyrsta lagi í öllum umsögnum og greinargerðum sem hafa komið fram um Háskóla Íslands og frá honum. Í öðru lagi hafa komið fjölmargar athugasemdir frá skólum eins og Tækniskólanum og Háskólanum á Akureyri svo ég nefni dæmi, þó svo að hitt sé alveg ljóst að Háskólanum á Akureyri hentar þessi lagasmíð betur en Háskóla Íslands. Það er líka alveg ljóst, að listaháskólarnir eru að gera sér vonir um að þetta hjálpi þeim til að verða viðurkenndir háskólar. Þannig viðurkenna listaháskólarnir að lögin um þá eins og þau standa í dag séu ófullnægjandi. Gagnstætt því sem stjórnarmeirihlutinn hélt fram á síðasta kjörtímabili þegar þau lög voru sett þá er greinilegt að menn telja að þau séu ófullnægjandi og að styrkja þurfi þau lagaákvæði. Staðreyndin er hins vegar sú að því er varðar listaháskólana að ekkert gerist sjálfkrafa í þeim út af þessu frv. Bókstaflega ekki neitt. Gagnstætt því sem haldið hefur verið fram af stjórnarmeirihlutanum, þá er ekki svo. Segjum að frv. verði að lögum. Þá verður að taka nýjar ákvarðanir í menntmrn. og ekki aðeins þar heldur á Alþingi líka, að því er varðar fjárhag stofnananna, ef þetta frv. á að breyta einhverju þegar það verður að lögum.

Þá vil ég koma að því atriði sem hefði þurft að ræða hér mun ítarlegar og það er sá veruleiki að svona frv., þó þau verði að lögum, eru oft verri en ekki neitt fyrir viðkomandi skólastig af því þau eru notuð sem afsökun fyrir fjársvelti. Það er sagt: ,,Já, það er nýbúið að samþykkja lög, nýbúið að samþykkja frv.`` En veruleikinn er á sama tíma sá að allar þessar stofnanir búa við stórkostlegt fjársvelti. Það á alveg sérstaklega við um Háskóla Íslands og reyndar einnig Kennaraháskólann eins og staðan er í dag.

Ég vil síðan víkja að þeim umræðum sem fram fóru hér um 6. gr. frv. og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson nefndi, um inntökuskilyrði í háskólana. Ég vil vekja athygli á því að stúdentaráð Háskóla Íslands, sem því miður hefur ekki mikið verið hlustað á í meðferð þessa máls, varaði sérstaklega við orðinu ,,viðbótarinntökuskilyrði`` sem er í 3. mgr. 6. gr. frv. Að vísu hefur Háskóli Íslands getað sett viðbótarinntökuskilyrði samkvæmt gildandi háskólalögum. En það var greinilegt að stúdentaráð og stúdentar voru hræddir um að þetta orð í þessari grein í þessu rammafrv. yrði notað til að ganga lengra í þessum efnum en verið hefur. Ég segi alveg eins og er og ég tek undir með hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni, að ég vara við því að menn gangi lengra en verið hefur í þeim efnum. Þetta eru þau atriði sem ég vildi láta koma fram að lokum af minni hálfu, herra forseti.

Ég endurtek það sem kom fram fyrr í dag að ég tel að hæstv. ráðherra hafi ekki svarað grundvallarspurningunum enn þá. Ég tel að það sé algerlega borin von að hann geri það vegna þess að málið er búið að fara í gegnum margar umræður og hefur þó ekki náðst niðurstaða á eðlilegan hátt í svörum hæstv. ráðherra. Þetta varðar sérstaklega 13. gr. um svokallaða atvinnulífsfulltrúa og hvaða hæfni og hvaða faglegar forsendur þeir þurfa að uppfylla. Og þetta varðar 14. gr. um stöðu rektors, þar sem greinilega er verið að veikja stöðu rektors, eins og greinin er, frá því sem verið hefur, því miður. Það er efni sem ber að harma. Af þeim ástæðum, herra forseti, er það eins með mig og áður hefur komið fram með aðra fulltrúa í minni hluta menntmn. að ég mun ekki geta greitt atkvæði með frv. við endanlega atkvæðagreiðslu þegar hún fer fram, sem verður ekki í dag, heldur væntanlega á morgun eða hinn daginn.