Kennaraháskóli Íslands

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 15:44:24 (2557)

1997-12-17 15:44:24# 122. lþ. 46.8 fundur 167. mál: #A Kennaraháskóli Íslands# frv. 137/1997, menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur

[15:44]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég tel að hér sé komið að lokum í löngu ferli um sameiningu kennaranáms á einu háskólastigi og að með sameiningu þessara fjögurra skóla sem mælt er fyrir um í þessu frv. sé verið að stíga mjög merkilegt skref til að styrkja kennaramenntun í landinu og styrkja innviði Kennaraháskóla Íslands og þá krafta sem þar vinna.

Varðandi þau atriði sem hv. þm. vék að, það er að segja húsnæðismálin, tækjakaup og Íþróttakennaraskólann, þá vil ég segja að það verður eitt af fyrstu verkefnum nýs skólaráðs hins sameinaða skóla að fjalla um húsnæðismálin í ljósi þeirrar staðreyndar að skólinn hefur tekið til starfa. Hann er starfandi á fjórum ólíkum stöðum. Hann er starfandi í Kennaraháskólanum, hann er starfandi í Fósturskólanum, Þroskaþjálfaskólanum og Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni.

[15:45]

Það er rétt að ég hef hreyft þeirri hugmynd að skólinn fái inni í Sjómannaskólahúsinu sem er í næsta nágrenni við Kennaraháskólann og mundi Sjómannaskólahúsið rýma Fósturskólann og fleiri stofnanir þannig að þær væru þá landfræðilega tengdar á Rauðarárholtinu. Þessi hugmynd hefur mætt mikilli andstöðu eins og vitað er og hún er nú til umfjöllunar í skólanefndum skólanna tveggja, Vélskólans og Stýrimannaskólans með sérfræðingum menntmrn. Ég vil ekki segja fyrir um niðurstöðu þess máls en hitt er ljóst að sérstaklega held ég að húsnæðisvandi Fósturskólans sé brýnn. Húsnæðisvandi Þroskaþjálfaskólans er ekki eins brýnn. Hann hefur verið leystur með viðunandi hætti með viðbyggingu við það hús þar sem skólinn hefur starfað um árabil og ég held að aðstaða þar sé nú þannig að þroskaþjálfaskólanemendur og starfsmenn sætti sig bærilega við þá aðstöðu. Hins vegar hefur enginn einn aðili komið að því að fjalla um það frá sjónarhóli stjórnenda þessara skóla eins og mælt er fyrir um í frv. og þess vegna hef ég litið svo á að það bæri að bíða eftir skipan hins nýja skólaráðs og það yrði viðmælandi ráðuneytisins um þessi mál og síðan yrði að frumkvæði þess og í samvinnu við ráðuneytið farið yfir hvernig best væri að taka á húsnæðismálunum.

Fyrir liggur tillaga um deiliskipulag á Rauðarárholti og það er alveg ljóst að þeir sem starfa í Kennaraháskólanum telja mikilvægustu nýframkvæmdina vera að ráðast í þjónustubyggingu og miðstöðvarbyggingar við Kennaraháskólahúsið. Í sjálfu sér get ég fallist á þá forgangsröð enda verði farið yfir málið að nýju af skólaráðinu og það komist að sömu niðurstöðu og gert hefur verið af stjórnendum Kennaraháskólans um það efni.

Við höfum því opnað og bent á marga kosti í þessu en við höfum ekki tekið endanlegar ákvarðanir í menntmrn. enda lít ég þannig á að það sé hlutverk ráðuneytisins í samvinnu við nýtt skólaráð að taka þessar ákvarðanir og það beri þá að gefa sér ráðrúm til þess eftir að skólinn hefur tekið formlega til starfa sem verður nú um áramótin, nái frv. fram að ganga.

Að því er tækjakostinn varðar hef ég ekki jafnglögga sýn á þau málefni. Það eru málefni sem þarf að skoða og meta og að sjálfsögðu ber að haga málum þannig að þessi skóli fullnægji kröfum að því er tækjabúnað varðar. Í fjárlagafrumvarpinu kemur núna fram að það á að gera átak til að efla til dæmis tölvutækjabúnað í Íþróttakennaraskólanum og ýmis áform eru uppi um að efla slíkan búnað í þessum skólum og til stendur að gera það. Hvað að öðru leyti þarf að gera, vil ég ekki fullyrða á þessu stigi málsins og tel að nýju skólaráði beri að ræða það og fara yfir þau málefni.

Varðandi fjárstreymi til skólans, þá mun það ráðast af samningi sem ráðuneytið gerir við skólann á grundvelli laganna eins og menn vita. Þar verður stuðst við reiknilíkan sem á að vera hið sama fyrir alla skóla á háskólastigi.

Ég hef aldrei ljéð máls á því í umræðum um hinn nýja kennaraháskóla að starfsemin á Laugarvatni leggist af. Þvert á móti hef ég oftar en einu sinni sagt að ég telji að það sé sérstakur akkur fyrir þennan skóla að hafa aðsetur á Laugarvatni einnig, til að styrkja starfsemi sína. Kennaraháskólinn sem nú er að sameinast hinum þremur skólunum hefur einnig aðstöðu í Varmalandi í Borgarfirði eins og vitað er þannig að þessi skóli mun hafa bækistöðvar á fleiri en einum stað utan Reykjavíkur.

Ég hef einnig í hyggju að breyta skipan mála á Laugarvatni þannig að Íþróttakennaraskólabyggingarnar verði óskoraður hluti af Kennaraháskólanum og afskiptum menntmrn. af þeim mannvirkjum ljúki. Fulltrúi ráðuneytisins hefur farið með húsnæðismál á Laugarvatni fyrir skólana en ég tel að hinn nýi skóli verði það öflug stofnun að hann eigi sjálfur að geta séð um húsnæðismálin á Laugarvatni og haft þau algerlega í sinni forsjá og afskipti menntmrn. af því eigi ekki að koma til nema þá með almennum samningi eða verkaskiptasamningi, en ekki að daglegri ráðstöfun á húsakosti á Laugarvatni. Hins vegar hefur einnig verið um samstarf að ræða milli Íþróttakennaraskólans og íþróttahreyfingarinnar og það finnst mér að sé einnig samningsmál milli skólans og íþróttahreyfingarinnar hvernig nýting á þeim húsakosti verður. Það vakir því síður en svo fyrir mér að starfsemin á Laugarvatni leggist af. Þvert á móti, eins og ég hef sagt, tel ég að það sé viss styrkur fyrir þennan skóla að hafa jafngóða aðstöðu á Laugarvatni og raun ber vitni og það hljóti að vera akkur fyrir stjórnendur skólans að tryggja stöðu sína þar frekar en veikja hana.