Kennaraháskóli Íslands

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 15:51:27 (2558)

1997-12-17 15:51:27# 122. lþ. 46.8 fundur 167. mál: #A Kennaraháskóli Íslands# frv. 137/1997, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur

[15:51]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir þessar upplýsingar. Ég vil í fyrsta lagi segja út af húsnæðismálum skólanna að ég tel að málið liggi þannig að ráðherrann muni, og hver sem kemur að því máli, komast að þeirri niðurstöðu að menn muni ekki fallast á að Sjómannaskólinn verði tekinn undir starfsemi Kennaraháskólans þannig að það þýðir að verið taka og hlýtur að verða tekin ákvörðun um að byggja við Kennaraháskólann eins og gert hefur verið ráð fyrir um langt árabil og það er auðvitað orðið miklu brýnna núna frá og með þessum tíðindum um áramótin en það hefur áður verið.

Ég vil einnig fagna yfirlýsingum hæstv. ráðherra varðandi Laugarvatn. Ég tel að það sé mjög mikilvægt og það sem skiptir mestu máli í því er sú afstaða að húsnæði Íþróttakennaraskólans á Laugarvatni verði sett undir Kennaraháskólann og verði ekki undir ráðuneytinu eins og verið hefur. Það hefur verið ólánsfyrirkomulag þar sem menntmrn. hefur verið hálfgerð sveitarstjórn á Laugarvatni og verið að mörgu leyti óheppilegt og erfitt og flókið að ná sáttum manna á milli um einföldustu fyrirkomulagsatriði eins og grindverk og girðingar, svo dæmi séu nefnd. Ég tel þess vegna að svör hæstv. ráðherra séu góð og fullnægjandi miðað við aðstæður og þær spurningar sem fram eru bornar.

Að öðru leyti vil ég segja að það skiptir öllu máli að vel verði af stað farið með þennan skóla, hann verði búinn góðum tækjum og búnaði strax í upphafi, því miklar vonir eru bundnar við þennan sameinaða skóla og okkur er skylt að fylgja honum myndarlega úr hlaði.