Húsaleigubætur

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 16:33:08 (2571)

1997-12-17 16:33:08# 122. lþ. 46.11 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, Frsm. minni hluta PHB
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur

[16:33]

Frsm. minni hluta félmn. (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. við frv. til laga um húsaleigubætur á þskj. 588 og 589. Á húsaleigumarkaði er ákveðið jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar sem endurspeglast í markaðsleigunni. Þegar teknar eru upp húsaleigubætur skekkist þetta jafnvægi og leigan hækkar eða eftirspurnin vex og það verður skortur á íbúðum. Þetta er almennt þekkt úr hagfræðinni og ætti að gilda hér á landi sem annars staðar. Það sem gerist þegar teknar eru upp almennar húsaleigubætur er að fólk sem ella mundi kjósa að búa heima hjá sér, t.d. ungt fólk, fer að huga að því að búa eitt og leigja sér íbúð. Við það vex eftirspurnin eftir íbúðum. Einnig geta þeir sem eru á leigumarkaði leigt sér dýrari íbúðir, fínni íbúðir, og eftirspurn eftir slíkum íbúðum vex og markaðsleigan hækkar.

Einnig má skoða eftirfarandi dæmi sem nefnt er í nefndarálitinu ef einstæðu foreldri með tvö börn stendur til boða að leigja algerlega tvær algerlega sambærilegar íbúðir í Fossvogsdal. Önnur er Kópavogsmegin og kostar 35.000 krónur á mánuði, hin er Reykjavíkurmegin og kostar 10.000 krónum meira, eða 45.000 krónur. Nú greiðir Kópavogur ekki húsaleigubætur en Reykjavík greiðir húsaleigubætur, sem þessi fjölskylda ætti rétt á upp á 21.000 krónur. Eftir skatt, ef við gerum ráð fyrir að þessar tekjur lendi í skattskyldu, fær fjölskyldan 13.000 krónur nettó út úr húsaleigubótunum þannig að hún er 3.000 krónum betur sett með því að leigja dýrari íbúðina í Reykjavík. Það þýðir að hún fer og leigir dýrari íbúðina í Reykjavík sem þýðir það í raun að húseigandinn í Reykjavík getur sett á 10.000 krónum hærri leigu. Þannig geta húsaleigubæturnar virkað til að hækka leiguna og eru í rauninni ekki bætur til leigjanda heldur til leigusala. Þetta hefur verið kannað erlendis og þessi tengsl eru mjög áberandi þannig að almenn upptaka húsaleigubóta er í reynd að einhverju leyti styrkur til leigusala en ekki til leigutaka.

Á fundi nefndarinnar þegar þetta var rætt kom fram að mikil spenna er á leigumarkaði í Reykjavík og skortur á leiguhúsnæði. Það er spurning hvort það sé nýtt ástand, og hvort það sé að þakka góðærinu sem núverandi ríkisstjórn og fyrri ríkisstjórn hefur leitt yfir þjóðina eða hvort það sé vegna upptöku húsaleigubótanna sem hafa aukið eftirspurn eftir leiguhúsnæði í Reykjavík. Leigan hækkar að sjálfsögðu þegar svona ástand varir og þá eru það ekki leigutakarnir sem fá bæturnar, heldur leigusalarnir.

Setja má spurningarmerki við þá stefnu að skylda sveitarfélög almennt til að taka upp húsaleigubætur vegna þess að þau hafa mismunandi félagslega þjónustu. Þau geta haft fá barnaheimili eða mörg barnaheimili, þau geta haft góða öldrunarþjónustu eða slæma, og þau geta haft mismunandi útsvar. Í sjálfu sér er allt í lagi gagnvart jafnræðisreglunni að hafa stöðuna þannig að sum sveitarfélög veiti húsaleigubætur en önnur ekki en þá kemur að því að samkvæmt núverandi reglum borgar ríkið 60% af húsaleigubótunum og það meiðir jafnræðisregluna. Allir verða að borga inn í húsaleigubótakerfið með sköttum en þeir eiga ekki rétt nema þeir einir sem búa í sveitarfélögum sem hafa tekið kerfið upp. Ég tel nauðsynlegt að taka upp almennar húsaleigubætur fyrir öll sveitarfélög vegna þess að ríkið hefur verið látið borga 60% af húsaleigubótunum.

Þær reglur um húsaleigubætur sem eru í gangi í dag og stendur til að hafa áfram koma hvergi fram í frv. og er mjög undarlegt að sett skuli vera fram frv. um húsaleigubætur án þess að nokkurs staðar sé þess getið í frv. sjálfu eða lögunum, ef samþykkt verður, hverjar bæturnar eigi að vera að lágmarki. Það kemur hvergi fram. Hins vegar er kerfinu lýst í greinargerð með bráðabirgðaákvæði II og þar getur maður séð að bæturnar eru 7.000 krónur fyrir fjölskylduna, óháð því hvort þar er ein fullorðin manneskja í fjölskyldunni, tvær, þrjár eða fjórar. Til dæmis hjón með eldri foreldra, þau fá 7.000 krónur, nákvæmlega eins og einstaklingur sem býr einn í íbúð, þ.e. fjórir einstaklingar, hjón með báða foreldra annars þeirra, fá sömu bætur og einstaklingur sem býr einn í íbúð. Síðan er tekið tillit til barna sem búa á heimilinu og þá væntanlega barna undir 18 ára aldri, það er skilgreiningin á barni. Fyrsta barn fær 4.500 krónur, annað barn fær 3.500 krónur og hvert barn umfram það fær 3.000 krónur, en 21.000 krónur eru hámark á leigubótunum, sem þýðir að ef börnin eru fleiri en þrjú, fær fjölskyldan ekkert fyrir þau börn sem koma þar á eftir. Þótt fjölskyldan sé með fimm börn, fær hún ekkert hærri bætur en fjölskylda með þrjú börn út af hámarkinu.

Þetta kerfi gerir það að verkum, eins og ég gat um, að einstaklingur fær sömu bætur og hugsanlega tveir, þrír eða fjórir fullorðnir í heimili. Fullorðin systkini sem leigja saman íbúð fá sömu bætur og einstaklingur. En þetta er kannski ekki það versta og væri kannski viðráðanlegt og allt að því félagslegt að taka svona mikið tillit til barna. Það sem er ófélagslegt í þessu eru skerðingarnar. Þær eru með ólíkindum. Það er nefnilega gert ráð fyrir því að sama hve fjölskyldan er stór, ef hún hefur samanlagt meira en 125.000 krónur á mánuði, þá byrja skerðingar, og þær ekki litlar. Það eru 24% af tekjunum umfram 125.000 krónur á mánuði sem bæturnar skerðast. Þær falla alveg niður við 155.000 krónur þegar um er að ræða barnlausa fjölskyldu og við 212.000 krónur þegar um er að ræða fjölskyldu með þrjú eða fleiri börn.

Þegar litið er yfir hvernig þetta virkar er í raun verið að segja að einstaklingur sem er með jafnvel 150.000 krónur í mánaðarlaun bara fyrir sjálfan sig, til að lifa einn og sér á, hann fær húsaleigubætur, en sex manna fjölskylda sem er með 212.000 krónur samtals fær engar húsaleigubætur. Ég fæ ekki skilið hvernig svo andfélagslegt kerfi er búið til. Framangreindar reglur sem útiloka barnafjölskyldur frá því að fá bæturnar gera það að verkum að tveir þriðju hlutar þeirra sem fá bæturnar í dag er barnlaust fólk. Enda er það svo að barnafjölskylda með þrjú eða fjögur börn verður að hafa meira en 212.000 krónur á mánuði annars bara kemst hún ekkert af. Fjölskyldan sér til þess með geysilega mikilli vinnu fyrirvinnanna að fjölskyldan hafi þessar tekjur en þá fær hún ekki húsaleigubætur. Það skýrir af hverju svo fáar barnafjölskyldur fá bætur.

Svo eru frítekjumörkin 125.000 krónur. Einstaklingur með 125.000 krónur fær fullar, óskertar bætur. En einstaklingur með engar tekjur, akkúrat engar tekjur, fær nákvæmlega sömu bæturnar. Hann hefur miklu meiri þörf fyrir þær að mínu mati en sá sem er með 125.000 krónur, bara fyrir sjálfan sig svo maður tali nú ekki um stóra barnmarga fjölskyldu sem er með litlar sem engar tekjur af ýmsum ástæðum. Þetta kerfi kemur illa við stórar fjölskyldur og það kemur illa við fjölskyldur með lágar tekjur. Það kemur illa við fjölskyldur sem ekki eru með hefðbundnu sniði, það er að segja fjölskyldur þar sem eru margir fullorðnir í heimili. Til dæmis eins og ég gat um þrjú systkini eða fólk með aldraða foreldra inni á heimilinu.

Þegar litið er til þess að 24% skerðing er á bótunum vegna tekna yfir 125.000 krónum og þegar tekið er tillit til þess að skerðing á barnabótum er 11% af tekjum þegar komið er yfir ákveðin mörk og þrjú börn, þegar tekið er tillit til skattprósentu erum við að tala um að 74% af tekjunum sem fara í minnkun bóta og skattlagningu þannig að jaðarskatturinn er 74%, eingöngu vegna þessara þriggja þátta. Svo getur fleira komið til, eins og endurgreiðsla á námslánum og fleira. Þarna er um að ræða mjög afdrifaríkar fátækragildrur. Þeir sem einu sinni komast inn á þessar bætur fá mjög lítið af þeim viðbótartekjum sem þeir afla sér. Það fer nánast allt í minnkun bóta þangað til bæturnar hverfa.

Í lögunum er ákvæði um að 25% af eignum umfram 3 millj. teljist til tekna og litið á það sem tekjur þegar tekjur eru metnar. Þetta þýðir 6% eignarskatt eða jaðarskatt á eignir sem er með því hæsta sem maður sér. Það merkir að á 17 árum er eignin tekin upp í með því að minnka bæturnar. Þetta hugsa ég sé ekki mikið mál og mér þætti eðlilegt að tengingin væri miklu mildari en að hún tæki til allra eigna ekki bara eigna yfir 3 milljónir.

Sjálfsagt er að reyna að átta sig á samspili þessara bóta og ýmissa annarra bóta sem eru í gangi í kerfinu og því miður er allt of lítið gert af því. Við erum t.d. með Lánasjóð ísl. námsmanna sem lánar námsmönnum fyrir húsnæðiskostnaði og annarri framfærslu að lágmarki 56.000 krónur á mánuði. Þarna er ákveðið samspil á milli vegna þess að námsmenn geta fengið húsaleigubætur og það kemur í ljós að þriðjungur þeirra sem eru á húsaleigubótum eru námsmenn.

[16:45]

Þriðjungur eru námsmenn sem eru og eiga að vera að fullu bættir hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna, líka fyrir húsnæðiskostnaði. Ef litið er á þetta kerfi samanlagt kemur í ljós að námsmaður sem á ríka foreldra og þarf þar af leiðandi ekki að vinna á sumrin fær húsaleigubæturnar algjörlega óskertar. Þær koma ekki til skerðingar á námsláninu og þær koma ekki til tekjuskatts og þær eru á engan hátt skertar. Hann fær því fullar húsaleigubætur. (KÁ: Þeir taka ekki lengur lán því það er óhagstætt.) Það mundi borga sig fyrir þá að taka lánið og kaupa spariskírteini, það er bara svo einfalt, og þeir sem eru glöggir gera það eflaust. (KÁ: Þeir gera það ekki.) Þeir borga enga vexti af námsláninu og þurfa hugsanlega ekki að borga það til baka þegar skilyrði eru fyrir því (KÁ: Það eru vextir af námslánum.) en spariskírteinin bera 6% vexti.

(Forseti (GÁS): Það er hv. 16. þm. Reykv. sem hefur orðið og á að beina orðum sínum til forseta.)

Það kemur í ljós að námsmenn fá húsaleigubæturnar til viðbótar við námslánið sem er ætlað til að standa undir framfærslukostnaði þeirra af húsnæði.

Herra forseti. Í frv. eru nokkur furðuleg ákvæði um hvað telst til tekna. Þar hafa menn að sjálfsögðu ætlað að vera góðir. Til dæmis er sagt að tekjur barna yfir 20 ára teljist til tekna fjölskyldunnar en væntanlega ekki undir þeim aldri. Það þýðir að fjölskylda 19 ára sjómanns, sem getur haft ansi myndarlegar tekjur samkvæmt nýjustu upplýsingum, hálfa milljón á mánuði að meðaltali, gæti fengið óskertar húsaleigubætur vegna þessara tekna. Sama er með námsmenn sem geta haft sæmilegar tekjur, þær eru ekki taldar með. En þær tekjur sem húsmóðirin fær fyrir skúra gólf á kvöldin vegna þess að fjölskyldan er stór og hún þarf að leggja hart að sér eða tekjur sem húsbóndinn sem þarf að leggja á sig með eftir- og næturvinnu skulu taldar að fullu en það sem krakkarnir hafa til þess að leika sér fyrir er ekki talið með. Mér finnst þetta vera mjög óeðlilegt og eiginlega til vansa að tekjur fullorðna fólksins sem þarf virkilega að leggja hart að sér til að sjá fjölskyldunni farborða skuli taldar að fullu með til frádráttar og skerðingar en tekjur krakka undir 20 ára og námsmanna eru ekki taldar með og að sjálfsögðu getur maður látið krakkana fara í skóla. (Gripið fram í: Tekjur námsmanna?)

Síðan er ákvæði um að bætur almannatrygginga teljist ekki með. Af hverju í ósköpunum ekki? Eru það öðruvísi tekjur en þær sem fólk þarf að vinna fyrir? Er virkilega meiningin að þeir sem fá bætur skuli fá húsaleigubætur en hinir ekki, að þeir sem fá ekki bætur úr almannatryggingum fái ekki húsaleigubætur? Þetta er alveg með ólíkindum. Ég get ekki séð af hverju í ósköpunum menn eru að undanskilja tekjur fjölskyldu frá almannatryggingum. Samkvæmt því er munur á fjölskyldum sem eru með nákvæmlega sömu tekjur þar sem önnur fær tekjur úr almannatryggingum að hluta til en hin eingöngu vegna vinnu. Tekjurnar fjölskyldunnar af vinnunni eru taldar að fullu til frádráttar og hún fær ekki húsaleigubætur en tekjur fjölskyldu frá almannatryggingum koma ekki til frádráttar og þar af leiðandi getur hún fengið húsaleigubætur til viðbótar. Ég skil ekki svona hugsun.

Herra forseti. Samkvæmt frv. eru gerðar nokkrar kröfur til þess húsnæðis sem fólk má búa í til að hljóta bætur. Það má ekki vera einstaklingsherbergi og ekki íbúð þar sem eldhús eða snyrting er sameiginleg með fleirum. Ýmislegt er við þetta að athuga. Í fyrsta lagi: Hvað kemur ríkisvaldinu eiginlega við hvernig fólk kýs að búa? Hvað er ríkið að kássast upp á það ef einhver einstaklingur vill búa ódýrt? Þessi forsjárhyggja að þvinga alla til að leigja heila íbúð og dýra íbúð, hvort sem þeir vilja það eða ekki er ákaflega undarleg svo ekki sé meira sagt. Það getur vel verið að einhver borgari vilji búa ódýrt, t.d. í einu herbergi hjá frænku sinni eða annars staðar og stunda í staðinn menningu, fara í leikhús eða stunda skíði og annað slíkt, það getur verið að hann vilji það. Hvað er verið að neyða fólk til þess að leigja dýrar íbúðir? Þar fyrir utan er engin trygging fyrir því að íbúðin sé góð þó henni fylgi baðaðstaða og eldhús. Það geta verið kytrur engu að síður og óíbúðarhæft í því húsnæði. Auk þess höfum við lög og reglur til þess að gæta þess að ekki sé í notkun húsnæði sem er ekki íbúðarhæft.

Svo er önnur spurning. Því miður eru margir einstaklingar sem hafa stopular tekjur, eru í óreglu, og búa í einstaklingsherbergjum vegna þess að þeir hafa ekki efni á því að búa dýrar, þeir hafa ekki efni á því að leigja sér íbúð. Þetta fólk, sem að mínu mati er kannski mest hjálparþurfi, fær engar húsaleigubætur af því það býr í herbergi, hefur ekki efni á að búa nægilega flott. Þetta er mjög til athugunar og ég get engan veginn fallist á svona kerfi.

Herra forseti. Í frv. er gerð krafa um að leigusamningi sé þinglýst. Ég hef ekki fengið nein svör við því af hverju í ósköpunum það er gert nema til að koma í veg fyrir málamyndagerning eða svindl. Nú er það svo að alltaf eru einhverjir sem svindla á kerfinu, einhverjir leigutakar sem búa til málamyndagerning o.s.frv. og honum verður þar af leiðandi ekki þinglýst en mér finnst alltaf slæmt og rangt að refsa meginhluta fólks sem er heiðarlegt og stendur í skilum með allt sitt og láta það hlaupa bæinn á enda og borga kostnað við þinglýsingu vegna nokkurra aðila sem eru að svindla. Mér finnst miklu eðlilegra að þeir aðilar sem sjá um framkvæmd þessara laga komi upp eftirliti sem stuðli að því að skriflegir samningar séu raunverulegir samningar. Það er enginn vandi að gera stikkprufur á því og kanna það. Mér finnst miklu eðlilegra að þeir aðilar sem sjá um framkvæmdina standi í því að kanna það að samningarnir séu réttir.

Herra forseti. Það húsaleigubótakerfi sem er í gildi og stendur til að hafa áfram er mjög gallað. Það er andfélagslegt, það oftryggir vissa hópa, t.d. eins að framan er nefnt, einstaklinga með nokkuð góðar tekjur, 140--150 þús. kr. á mánuði eingöngu fyrir sjálfa sig, ekki til framfærslu barna eða annað slíkt. Hins vegar vantryggir það stóra hópa, fólk sem er með börn og fólk sem er með lágar tekjur eins og kom fram áðan hjá hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur um það að fólk hjá Reykjavíkurborg missti bætur. Það er vegna þess að það er með of lágar tekjur til þess að falla undir þessi lög, nýju reglurnar gera bara ekki ráð fyrir því. Það borgar of háa leigu eða fær ekki nægilega stóran hluta af leigunni tryggðan. Það er langt undir tekjumörkunum og fær þar af leiðandi allt of lítið. Kerfið vantryggir því vissa hópa eins og ég gat um áðan, fólk sem er í leiguherbergjum, barnmargar fjölskyldur og fjölskyldur sem ekki detta beint inn í staðalinn að vera foreldrar með börn.

Herra forseti. Minni hlutinn leggur því til eftirfarandi breytingar á frv.: Ekki verði gerð krafa um þinglýsingu húsaleigusamnings, sú krafa er óþörf. Lagt er til að húsaleigubætur taki mið af öllum fjölskyldumeðlimum þannig að aldraðir foreldrar skipti ekki síður máli en börn. Þá er ekki gert krafa um að bæturnar nái eingöngu til íbúða með snyrtingu og eldhúsi, samanber rökstuðninginn sem ég kom inn á áðan. Þá er lagt til að 50% þakið á bæturnar verði fellt niður og tekið upp 80% þak. Lagt er til að 2. og 3. mgr. 7. gr. frv. falli niður en þar er fjallað um markaðsleigu sem erfitt er að meta og þar er líka talað um íbúðarmikið og óhóflegt húsnæði sem ,,stóri bróðir`` á að hafa eftirlit með að menn séu ekki að standa í því að leigja svoleiðis og einnig takmörkun á leigufjárhæð félagasamtaka. Þetta er allt óþarft að mínu mati. Þá er lagt til að tekjur þeirra sem eru 20 ára og yngri séu að sjálfsögðu taldar með tekjum fjölskyldunnar og einnig námsfólks og að tekjur fólks frá almannatryggingum séu taldar með til skerðingar nákvæmlega eins og aðrar tekjur. (Forseti hringir.)

(Forseti (GÁS): Forseti biður hv. þm. afsökunar en miðað er við það að ljúka fundi um fimmleytið og einn hv. þm. hefur óskað eftir að veita andsvar við ræðu þingmannsins.)

Það er ein mínúta eftir. Þá er gerð smávægileg breyting um að ekki þurfi að bíða eftir því að umsóknin sé afgreidd til þess að fá bæturnar heldur sé þær reiknaðar frá þeim degi sem beiðni er lögð inn um umsóknina enda sé þá réttur til staðar.

Svo er ankannalegt ákvæði í 3. mgr. 14. gr. um að réttindi fólks falli niður við andlát. Það er svo sjálfsagður hlutur að undirrituðum finnst óþarfi að taka það fram.