Markaðshlutdeild fyrirtækja

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 10:10:31 (2579)

1997-12-18 10:10:31# 122. lþ. 47.1 fundur 215. mál: #A markaðshlutdeild fyrirtækja# (áætlunarflug) fsp. (til munnl.) frá samgrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[10:10]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. samgrh. fyrir svörin og vil gefa honum hæstu einkunn í hraðlestri. Hæstv. ráðherra hafði sig í gegnum svör allra helstu flugfélaga landsins og endaði á hinu merka flugfélagi Mýflugi. Auðvitað var fróðlegt að heyra afstöðu flugfélaganna til fyrirspurnarinnar en mig rekur varla minni til þess að hafa heyrt fyrirspurn svarað með þessum hætti áður. Athyglisvert var að ekki eitt einasta orð kom fram í svarinu um afstöðu hæstv. ráðherra. Nú hafði ég lesið fyrirspurnina þannig að, a.m.k. að einhverju leyti, væri hv. þm. Tómas Ingi Olrich að spyrja hæstv. samgrh., Halldór Blöndal, um afstöðu hæstv. ráðherra til markaðshlutdeildar einstakra fyrirtækja í flugsamgöngum og hvort ástæða væri til að takmarka umsvif þeirra eða starfsemi umfram það sem samkeppnislög segja til um. Ráðherra kaus að svara með því að lesa upp bréf frá flugfélögunum en vék ekki einu orði að afstöðu sinni eða ráðuneytisins til málsins. Það er athyglisvert.