Starfsleyfi atvinnubifreiðastjóra

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 10:26:41 (2587)

1997-12-18 10:26:41# 122. lþ. 47.3 fundur 273. mál: #A starfsleyfi atvinnubifreiðastjóra# fsp. (til munnl.) frá samgrh., MF
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[10:26]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. 1995 tóku gildi ný lög um leigubifreiðar sem jafnframt eiga að gilda um akstur vörubifreiða og sendibifreiða en gera það alls ekki að sama skapi. Lögin voru sett vegna úrskurðar Mannréttindadómstóls Evrópu um kæru leigubifreiðastjóra vegna ákvæðis í lögum um félagaskyldu. Þá var afnumin skylda bifreiðastjóra að vera í einu og sama stéttarfélagi á þeim svæðum þar sem fjöldi bifreiða í leiguakstri var takmarkaður. Eftir að lögin tóku gildi 1995 var ekki sett ný reglugerð en þangað til átti að gilda reglugerð nr. 121/1990. Sú reglugerð fjallar fyrst og fremst um takmörkun á fjölda bifreiða. Þar segir í 6. gr. að stéttarfélag það sem nýtur takmörkunar skuli hafa umsjón með því að fjöldi bifreiða á félagssvæði skuli vera í samræmi við hámark það sem getið er um í reglugerðinni.

Þegar ný lög voru sett var grundvöllur þessa hins vegar brostinn þar sem félög sendibifreiðastjóra og vörubifreiðastjóra geta ekki með nokkru móti sagt til um þann fjölda þeirra sem stunda þessa atvinnu, enda ekki lengur skylda að vera í félagi. Mjög hefur færst í vöxt að menn stundi þessa atvinnu án þess að hafa tilskilin leyfi samkvæmt því sem áður gilti um vörubifreiðaakstur og sendibifreiðaakstur. Í raun ríkir orðið ófremdarástand í þessari starfsemi og félög atvinnubifreiðastjóra, þ.e. vörubifreiðastjóra og sendibifreiðastjóra, hafa ítekað farið fram á það við hæstv. ráðherra að sett verði ný reglugerð. Þeir vilja skýrari reglur um þessa atvinnustarfsemi og hafa óskað eftir því að sérstök reglugerð um atvinnuleyfi verði sett. Með þessum atvinnuleyfum verði sett skýr skilgreining á starfi sendibifreiðastjóra og vörubifreiðastjóra, starfssvið þessara atvinnugreina og leigubílstjóra verði aðgreint og tryggt að menn séu í stéttarfélagi eða hagsmunafélagi á viðurkenndri sendi- eða vörubílastöð. Við þessu hefur, eftir því sem ég best veit, ekki verið orðið þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir og þrátt fyrir það að kærum, t.d. frá Félagi sendibifreiðastjóra til ráðuneytis eða kvörtunum yfir ólöglegri starfsemi hafi fjölgað verulega. Á þskj. 343 bar hv. varaþm. Guðmundur Lárusson fram fyrirspurn í þremur liðum:

1. Hvaða skilyrði eru sett fyrir atvinnuleyfum sendibifreiðastjóra og vörubifreiðastjóra?

2. Telur ráðherra ástæðu til að sett verði löggjöf eða reglur um starfsemi sendibifreiða og vörubifreiða?

3. Mun ráðherra beita sér fyrir því að sett verði á stofn sérstök starfsleyfaskrifstofa sem sjái um úthlutun starfsleyfa og hafi eftirlit með framkvæmd laga nr. 61/1995 og reglna settra samkvæmt þeim?