Landafundir Íslendinga

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 10:42:05 (2592)

1997-12-18 10:42:05# 122. lþ. 47.4 fundur 243. mál: #A landafundir Íslendinga# fsp. (til munnl.) frá forsrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[10:42]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að taka þetta mál upp. Það er mikilvægt að vandað verði til undirbúnings þessa afmælis og ég minni á tillögu hv. þm. Svavars Gestssonar í því sambandi.

Ég vil leyfa mér að leggja inn í þetta púkk þá hugmynd að rituð verði saga landnáms Íslendinga í Grænlandi og inn í þá sögu fléttað Vínlandsfundinum og siglingunum þangað. Þar eru að sjálfsögðu mikilvægar frumheimildir Grænlendinga saga og Eiríks saga rauða. En með því að bæta við upplýsingum úr fornleifarannsóknum og síðari tíma heimildum þá held ég að þetta gæti orðið mikilvægt efni og ef lagðir verða til þess fjármunir og hæfir sagnfræðingar og fornleifafræðingar og íslenskufræðingar fengnir til þess að leggja í þetta vinnu, þá gæti orðið mikill fengur að slíkri söguritun, ef um vandað og ítarlegt verk yrði að ræða. Mér er ekki kunnugt um að slík saga hafi nokkurs staðar verið tekin skipulega saman Sennilega hefur meira verið að því unnið á Grænlandi en hér á Íslandi. Ég held að við eigum að heiðra þessa arfleifð. Slík saga gæti síðan orðið bakgrunnur fyrir kvikmyndagerð og námsefnisgerð og annars slíks sem tvímælalaust er ástæða til að efla í því sambandi. Ég leyfi mér því að leggja þessa hugmynd inn í þetta púkk.