Gjaldskrárbreytingar Pósts og síma hf.

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 10:47:31 (2595)

1997-12-18 10:47:31# 122. lþ. 47.5 fundur 299. mál: #A gjaldskrárbreytingar Pósts og síma hf.# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi GÁS
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[10:47]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Árni Stefánsson):

Virðulegi forseti. Öllum eru í fersku minni þau áform stjórnvalda að hækka verulega símgjöld hér á landi í seinni hluta októbermánaðar sl. Ollu þessi áform mikilli reiði og andstöðu í þjóðfélaginu, með réttu. Hækkunin var tilefnislaus en gagnrýni og réttmætum fyrirspurnum frá almenningi vegna hennar var svarað með hroka og yfirlæti. Fór þar hæstv. samgrh. gjarnan í broddi fylkingar og var gjarnan viðkvæðið það að ekki væri hægt að svara fyrir um forsendur þessara hækkana vegna meintra viðskiptaleyndarmála. Það er að vísu sérstakur kapítuli sem ég mun ekki gera hér að umtalsefni en ég hef þegar lagt fram frv. í þinginu til breytinga á lögum um þingsköp og hlutafélög til þess að tryggja að í hlutafélögum í eigu ríkissjóðs, 50% og meira, verði svarað á réttmætan hátt fyrirspurnum kjörinna fulltrúa þjóðarinnar.

Þar kom, í þessu ferli öllu saman, að hæstv. forsrh. skarst í leikinn og knúði fram breytingar og sneið verstu agnúa af áformum um símgjaldahækkanir. Fékk hann lof fyrir. Ekki er það í fyrsta sinn og væntanlega ekki hið síðasta að hæstv. forsrh. snuprar samráðherra sína þegar í óefni virðist komið.

En er öll sagan sögð, virðulegi forseti? Var allt sem sýndist þegar forsrh. tók samgrh. til bæna, sneri hann niður og skipaði honum að draga í land og bakka út úr vandræðamálinu, hækkun á gjaldskrá Pósts og síma?

Það er mjög mikilvægt í stjórnsýslunni og hinni pólitísku umræðu að allar staðreyndir þessa máls liggi ljósar fyrir. Var hæstv. forsrh. sá bjargvættur í málinu eins og haldið hefur verið fram? Hver, hvar og hvernig eru ákvarðanir af þessum toga teknar í stjórnkerfinu hér á landi? Hafði hæstv. forsrh. t.d. lagt blessun sína yfir hækkun símgjalda í ríkisstjórn áður og hvatt hæstv. samgrh. til verka og síðan skipt um skoðun? Eða vissi verkstjóri ríkisstjórnarinnar virkilega ekkert um áform þessi fyrr en í óefni var komið? Af þessum sökum hef ég lagt fram eftirfarandi fyrirspurnir til hæstv. forsrh.:

1. Var ríkisstjórninni kynnt fyrir fram sú fyrirætlun samgönguráðherra að staðfesta nýja gjaldskrá Pósts og síma hf. sem tók gildi 1. nóvember sl.?

2. Ef svo var, gerði ríkisstjórnin engar athugasemdir við þær fyrirætlanir og lagði þar með blessun sína yfir þá gjaldskrárbreytingu?

3. Ef svo var ekki, telur ráðherra þá eðlilegt að stórmál af þessum toga, er snertir verulega útgjöld heimilanna, sé til lykta leitt án atbeina ríkisstjórnarinnar?

4. Hafði ráðherra engar upplýsingar um það fyrir fram að þessar umtalsverðu gjaldskrárbreytingar væru í aðsigi?

5. Kom ráðherra jafmikið á óvart og öðrum landsmönnum sú stórfellda hækkun símkostnaðar sem ákvörðun samgönguráðherra og stjórnar Pósts og síma hf. leiddi af sér þegar hún var tilkynnt fjölmiðlum, samanber síðari afskipti ráðherra af málinu?