Gjaldskrárbreytingar Pósts og síma hf.

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 10:57:46 (2599)

1997-12-18 10:57:46# 122. lþ. 47.5 fundur 299. mál: #A gjaldskrárbreytingar Pósts og síma hf.# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[10:57]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það hefur verið nokkuð í tísku undanfarið að tala um afskipti forsrh. af málum einstakra ráðherra út í frá og hafa menn getað nefnt til sögunnar þrjú eða fjögur dæmi á sex ára ferli sem varla teljast nú mörg dæmi. Hins vegar er það auðvitað þannig, og það þekkir hv. fyrirspyrjandi, að forsrh. hefur heilmikil afskipti af málum einstakra ráðherra á meðan mál eru á umræðustigi og innan ríkisstjórnar, nema hvað, og það er sjálfsagt og eðlilegt. Og reyndar ekki bara forsrh., einstakir ráðherrar einnig. Þannig vinna ríkisstjórnir, hafa afskipti af gjörðum sinna kollega á frumstigi og á vettvangi ríkisstjórnar sem er mjög hollt og það hefur í gegnum tíðina haft jákvæð áhrif á meðferð mála. Dregin hafa verið fram í dagsljósið 3--4 slík atvik þar sem slík afskipti hafa átt sér stað með vitund manna út í frá. En ég tel að þau atvik séu fá á sex ára ferli.

Ég tel jafnframt að fengur sé að því að sem flest stærri mál á vettvangi einstakra ráðuneyta séu kynnt og rædd í ríkisstjórn á hverjum tíma þó að einstakir ráðherrar fari að íslenskri stjórnskipun með úrslitavald á sínum vettvangi. Þetta er dálítið sérstakt hjá okkur og að hluta til er þetta sérstakara vegna þess að búum við samsteypustjórnarfyrirkomulag. Annars staðar er þetta öðruvísi og ríkisstjórnin er meira í farvegi þess að vera fjölskipað stjórnvald.

Í okkar tilfelli --- það þekkja þeir fyrrverandi ráðherrar sem hér sitja í salnum --- í ýmsum greinum, þá birtist ríkisstjórnin í vinnu sinni sem fjölskipað stjórnvald. Ráðherrar fara ekki fram með mál sem þeir þó hafa fullt forræði á ef þeir finna mikla andstöðu kolleganna og samstarfsmanna í ríkisstjórn. Þannig hef ég kynnst því á þessum árum og það eru eðlileg vinnubrögð að mínu viti.