Eftirlitsstarfsemi hins opinbera

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 11:07:23 (2604)

1997-12-18 11:07:23# 122. lþ. 48.4 fundur 346. mál: #A eftirlitsstarfsemi hins opinbera# frv., forsrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[11:07]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. um eftirlitsstarfsemi hins opinbera. Ég tel rétt í upphafi að gera nokkra grein fyrir þeirri stefnu sem eftirlitsmálasetningarvald opinberra aðila hefur tekið á undanförnum árum.

Í flestum iðnvæddum ríkjum heims hefur hið opinbera teygt sig lengra inn í atvinnulíf og mannlíf þegnanna undanfarna áratugi en áður hefur þekkst. Starfrækt er opinbert eftirlit með sífellt fleiri þáttum og reglusetning opinberra aðila felst í æ nákvæmari fyrirmælum. Að mörgu leyti er þetta eðlilegt og oft jákvætt. Með betri þekkingu og opnara upplýsingasamfélagi hefur vitund fólks vaknað um ýmis þjóðþrifamál svo sem umhverfismál, neytendavernd og vinnuöryggi. Við stjórnmálamenn viljum láta gott af okkur leiða í þessum málaflokkum sem öðrum. Því bregðum við oft á það ráð að setja eftirlitsreglur til að ná fram markmiðum sem okkur þykja göfug. Oft leiðum við hins vegar hjá okkur aðra hlið slíkra mála en hún er sú að nákvæmar reglugerðir og opinbert eftirlit geta haft óhagræði og ófrelsi í för með sér. Almenningur og fyrirtæki hafa þá minna svigrúm til að skipa málum eftir eigin höfði og af getur hlotist sóun, kostnaður og hægari framþróun. Samskipti atvinnulífsins við opinberar eftirlitsstofnanir geta verið langvinn og kallað á dýra sérfræðiráðgjöf. Eins geta eftirlitsiðgjöld verið í litlu samræmi við eðlilegan kostnað við eftirlitið og kæruleiðir eru óljósar. Eftir því sem kvöðum hins opinbera fjölgar þeim mun meiri líkur eru á að einstök reglusetning sem ein og sér er kannski skynsamleg sé skaðleg í samspili við aðra þætti regluverksins. Þar að auki er réttarstaða manna víða óljós. Til eru dæmi um það hérlendis að ekki sé hægt að uppfylla eina reglugerð án þess að brjóta aðra. Víst er að virðing manna fyrir lögum og reglum eykst ekki við slík tilvik. Ekki hefur farið fram nein formleg greining á þeim kostnaði sem eftirlitskröfur hins opinbera valda hérlendis. Ljóst er þó að þessi óbeina skattheimta er geysilega há. Í Bandaríkjunum er til að mynda talið að kostnaður almennings og fyrirtækja vegna regluverksins vestra jafngildi frá fjórðungi til helmings af útgjöldum fjárlaga ríkisins. Öruggt má telja að við Íslendingar séum ekki eins langt komnir á braut reglustýringar en þessi kostnaður skiptir miklu hérlendis engu að síður. Með EES-samningnum, sem var í heild sinni hagstæður samningur, höfum við þurft að taka upp fjölda opinberra fyrirmæla sem okkur þóttu áður ónauðsynleg. Reyndar má leiða að því getum að við höfum lögleitt fleiri reglusetningar en skuldbindingar okkar vegna samningsins kröfðust. Að minnsta kosti er ljóst að bæði vegna þessa samnings og eins almennrar þróunar hins opinbera hérlendis þarf að endurhugsa eftirlitskvaðir og regluverk hins opinbera með það fyrir augum að halda í lágmarki óhagræði almennings og fyrirtækja. Í því sambandi þarf að viðhafa þá meginreglu að hafna takmörkunum á athafnafrelsi nema almannahagsmunir krefjist. Efnahagsleg afkastageta þjóðarinnar er að miklu leyti ákvörðuð af því svigrúmi sem hið opinbera veitir.

Herra forseti. Stefna ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki er ekki ítarleg en skýr. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Dregið verði úr skrifræði í samskiptum borgaranna við stjórnvöld og óþarfa laga- og reglugerðarákvæði verða afnumin.``

Enn fremur segir, með leyfi forseta:

,,Tryggt verður að eftirlitsaðilar íþyngi fyrirtækjum ekki um of með starfsemi sinni.``

Því frv. sem hér er mælt fyrir er ætlað að vinna að þessum markmiðum. Það er hins vegar ekki eingöngu ríkisvaldið eða núv. ríkisstjórn sem er áfram um slíkar umbætur. Í tíð síðustu ríkisstjórnar var frv. þetta fyrst unnið. Að auki hefur fjöldi aðila í þjóðfélaginu, sér í lagi atvinnulífinu, hvatt til þess að komið verði böndum á opinberar eftirlitskvaðir. Í maí á þessu ári skuldbundu ríki OECD sig til að vinna að úmbótum á reglustýringu í löndum sínum. Okkur Íslendingum er bæði ljúft og skylt að verða við því.

Frv. kveður á um að ný íþyngjandi reglusetning skuli ekki samþykkt nema áður hafi farið fram greining sem gefur til kynna að kostnaður samfélagsins af breytingunni sé lægri ábatanum. Þá skulu eftirlitsreglur hafa takmarkaðan gildistíma svo sérstaklega þurfi að endurnýja þær. Hver reglusetning skal taka mið af þeim sem eiga að fara eftir henni en ekki aðeins þeim sem setja hana og stýra henni. Forsrn. skal hafa umsjón með framkvæmd laganna og forsrh. skipar nefnd sér til fulltingis. M.a. á þeim vettvangi er hægt að vinna að stöðugum umbótum á eftirlitsstarfsemi sem starfrækt er í skjóli hins opinbera. Þegar þekkjast sjálfstæðar skoðunarstofur á ýmsum sviðum og ber að nýta kosti samkeppni á milli faggiltra aðila þar sem þess er kostur. Þar sem slíkri ráðstöfun verður komið við má gera ráð fyrir að ýmsar skoðunarstofur muni veita fjölbreyttari eftirlitsþjónustu en hinar sérhæfðu opinberu eftirlitsstofnanir geta gert. Fyrirtæki þurfa þá ekki að vænta jafnmargra heimsókna eftirlitsaðila og nú og kostnaður vegna samskipta við þessa aðila fer almennt lækkandi. Það er vandasamt að geta sér til um hverju umbætur af þessu tagi munu skila. Í þeim löndum sem búa við umfangsmikið regluverk gerir OECD ráð fyrir að verg landsframleiðsla muni aukast um 3--6% þegar umbótum í reglusetningu og reglustýringu hefur verið hrint í framkvæmd af metnaði.

Hérlendis er ekki hægt að vænta jafnmikils vaxtar í kjölfar umbóta af þessu tagi þar sem reglubyrði fyrirtækja og almennings er talin talsvert minni en víða annars staðar. Hins vegar er ljóst að þróunin hér er með sama hætti og erlendis og því nauðsynlegt að takmarka vald opinberra aðila til óheftrar reglustýringar. Bráðabirgðaákvæði frv. kveður á um að endurskoða skuli núv. reglur á næstu þremur árum. Með þessum hætti mál grisja hið íslenska hagkerfi og gæta þess að vaxtarbroddar nái upp úr því illgresi sem ofvaxið eftirlitsbákn getur orðið. Herra forseti. Það er von mín að frv. þetta verði til þess að lagaumhverfið íslenska verði sem frekast er unnt byggt á einföldum og almennum grundvallarreglum.

Nútímasamfélag er vissulega flókið og tekur örum breytingum. Ekki er endilega þar með sagt að lög og reglur þurfi að elta allar breytingar jafnharðan sé löggjöfin byggð á skýrum gildum í upphafi. Þvert á móti tel ég að hið opinbera eigi ekki að flækja líf þegnanna meira en nauðsynlegt er.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu óska ég þess að frv. verði vísað til efh.- og viðskn.