Eftirlitsstarfsemi hins opinbera

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 11:14:08 (2605)

1997-12-18 11:14:08# 122. lþ. 48.4 fundur 346. mál: #A eftirlitsstarfsemi hins opinbera# frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[11:14]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég hlýt að lýsa ánægju minni og fögnuði yfir frv. sem er mjög mikilsvert og ég vona að það komi til með að hafa mikil áhrif. Eins og hæstv. forsrh. gat um í framsögu sinni er þess að vænta að frv. hafi ekki eins mikil áhrif og svipuð frv. hefðu t.d. í Evrópusambandinu eða í öðrum þrælskipulögðum þjóðfélögum. Engu að síður er í dag eftirlitsstarfsemi hins opinbera ákveðnir hlekkir á atvinnulífið. Við sjáum atvinnulífið fyrir okkur eins og hlekkjaðan dráttarklár sem burðast með alls konar keðjur um hrygginn sem eru ætlaðar til að bæta stöðu hans oft og tíðum, þ.e. bæta stöðu þess sem vinnur í atvinnulífinu. En í reynd dregur þetta niður afköst atvinnulífsins, dregur niður hagnað atvinnulífsins og þá um leið getu þess til að borga góð laun. Að gera t.d. kröfu um gott vinnuumhverfi sem við viljum öll hafa, gera kröfu um öruggt vinnuumhverfi o.s.frv., dregur um leið niður getu atvinnulífsins til að borga laun. Þarna þarf að finna góðan milliveg þannig að eftirlitsstarfsemin sjálf sé hagkvæm og arðbær ekki síður en atvinnulífið.

Svo er það rétt sem hæstv. forsrh. kom inn á í ræðu sinni að þegar við ætlum að gera vel við einhvern þá er það oft þannig að við förum að ráðskast með hann. Við förum að segja honum hvað hann á að gera og hvernig hann eigi að hegða sér af því að við teljum sjálf að hann hegði sér ekki nægilega vel. Við erum nýbúin að hækka forræðisaldurinn úr 16 í 18 ár, þ.e. gera mörg þúsund Íslendinga að börnum sem áður voru taldir fullveðja fólk. Þetta gerum við af umhyggju fyrir örfáum einstaklingum sem eru á villigötum. Það sama erum við að gera á mörgum mörgum sviðum. Ég nefni húsaleigubæturnar sem við ræddum í gær. Þar á að fara af umhyggju fyrir borgaranum að segja honum að hann eigi að búa í íbúð með baði og snyrtiaðstöðu þó hann vilji það ekki sjálfur. Þó hann gjarnan vildi búa í herbergi má hann það ekki, hann fær ekki bæturnar nema hann geri það sem ,,stóri bróðir`` segir honum að gera. Af umhyggju fyrir borgurunum er alltaf verið að þrengja athafnafrelsi þeirra. Ég held að við þurfum að vera mjög varkár í því hversu langt við göngum og ég held alveg sérstaklega, herra forseti, að þessi eftirlitsiðnaður og allar þær viðjar, þeir ósýnilegu hlekkir, sem við leggjum á atvinnulífið komi niður á lífskjörunum. Við þurfum að gæta okkar alveg sérstaklega í því. Ég fagna því að hér er komið fram frv. sem reynir að gera eftirlitsiðnaðinn hagkvæmari.