Fæðingarorlof

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 11:18:04 (2606)

1997-12-18 11:18:04# 122. lþ. 48.5 fundur 343. mál: #A fæðingarorlof# (feður) frv. 147/1997, Frsm. ÖS
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[11:18]

Frsm. heilbr.- og trn. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég flyt nál. heilbr.- og trn. um frv. til laga um breytingu lagaákvæða um fæðingarorlof.

Nefndin hefur fjallað ítarlega um málið. Hún fékk á fund sinn fulltrúa heilbr.- og trmrn., fulltrúa frá Jafnréttisráði, bæði karlanefnd þess og framkvæmdastjóra skrifstofu jafnréttismála. Frá Alþýðusambandi Íslands komu jafnframt fulltrúar. Umsögn barst nefndinni einnig frá skrifstofu jafnréttismála.

Í frv. er verið að leggja til þá grundvallarbreytingu á íslenskum lögum að feðrum er nú tryggður sjálfstæður réttur til tveggja vikna fæðingarorlofs á fyrstu átta vikunum eftir fæðingu eða heimkomu barns. Nefndin er fyllilega sammála tillögunni en hún gerði jafnframt að lokinni umfjöllun sinni nokkrar brtt. að frv.

Í fyrsta lagi telur nefndin að eðlilegt sé að auka rétt feðra við fjölburafæðingar, alvarlegan sjúkleika barns eða alvarleg veikindi móður og leggur til að tvær vikur bætist við fyrir hvert barn sem er umfram eitt. Hefur nefndin þar sérstaklega í huga heilsufar móður í kjölfar barnsburðar en rétt er að taka fram að það telst ekki mismunun samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla að taka með þessum hætti sérstakt tillit til kvenna vegna þungunar eða barnsburðar. Nauðsynlegt er að ítreka jafnframt, herra forseti, að þessi forgangsréttur móðurinnar raskar ekki sjálfstæðum rétti föður til tveggja vikna fæðingarorlofs sem stofnaður er með 1. gr. frv. Í þriðja lagi leggur nefndin líka til að ákvæði til bráðabirgða í frv. verði breytt á þann veg að lögin muni jafnframt taka til þeirra feðra barna sem geta nýtt sér réttinn við lögfestinguna í stað þess eins og kom upphaflega fram í frv. að það taki einungis til feðra barna sem fæðast eftir 1. jan. á næsta ári.

Að því er varðar rétt feðra til töku fæðingarorlofs á fyrstu átta vikunum eftir fæðingu eða heimkomu barns var nefndin þeirrar skoðunar að nauðsynlegt væri að kveða nánar á um útfærslu þeirra ákvæða í reglugerð, sér í lagi varðandi þær aðstæður sem kunna að koma upp ef barn eða móðir þurfa eftir heimkomu að snúa aftur á sjúkrahús.

Talsverðar umræður urðu í nefndinni um lög um fæðingarorlof sem að öðru leyti eru í gildi og nefndin telur rétt að láta þá skoðun sína í ljósi í þessu áliti að stefnt skuli að því að heildarendurskoðun ákvæða laga um fæðingarorlof hér á landi fari fram.