Fæðingarorlof

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 11:52:06 (2610)

1997-12-18 11:52:06# 122. lþ. 48.5 fundur 343. mál: #A fæðingarorlof# (feður) frv. 147/1997, SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[11:52]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Í orðum síðasta ræðumanns kom fram að fyrirvarinn væri vegna mismunandi kjara, þ.e. á almenna vinnumarkaðnum og hjá opinberum starfsmönnum, og það er alveg rétt. Það hefur verið þannig í gegnum tíðina og auðvitað fer þetta yfir á karlmennina núna, má segja. En hér kom líka fram að þetta mál er til mikilla bóta og taka allir heils hugar undir það. Varðandi orð hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur þar sem hún talaði um sambúð og þá sem eru giftir, og að sömu reglur eigi að gilda hjá opinberum starfsmönnum og fólki á almenna vinnumarkaðnum, þá fórum við talsvert yfir það mál í nefndinni og töldum eðlilegt að gera ætti þá kröfu til feðranna að þeir væru í sambúð eða giftir mæðrunum, og ég vil bara ítreka það að mér finnst það eðlileg krafa. Mér finnst óeðlilegt að karlmaður sem á barn með konu en er ekki í sambúð með henni, ekki giftur henni og býr ekki með henni eigi að fá fæðingarorlof. Ég vil hins vegar taka undir það sem fram kom í máli hv. þm. að það er óeðlilegt að mismunandi reglur gildi fyrir opinbera starfsmenn að þessu leyti og almenna vinnumarkaðinn. Mér finnst eðlilegt að reglur fjmrh. verði endurskoðaðar í því tilliti.