Fæðingarorlof

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 12:44:53 (2620)

1997-12-18 12:44:53# 122. lþ. 48.5 fundur 343. mál: #A fæðingarorlof# (feður) frv. 147/1997, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[12:44]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Ég heyrði ekki nákvæmlega hvernig hæstv. ráðherra orðaði það en það var eitthvað á þá leið að þessi réttur ætti ekki að ganga til einhverra karla úti í bæ sem ekki sinntu börnum sínum. Sennilega átti hann við það sem vikið var að áður í umræðunni að þetta ætti einvörðungu að eiga við um fólk sem væri í sambúð. En það getur nú staðið misjafnlega á fyrir fólki og stundum eignast fólk börn án þess að hafa gifst eða það búi saman. Ungt fólk getur búið í sínum heimahúsum, á því getur verið allur gangur. Hér er verið að tryggja rétt föðurins. Auðvitað er ætlast til þess að faðirinn sinni barni sínu. Við getum hins vegar aldrei tryggt það, hvort sem fólk er í sambúð eður ei. Við teljum að siðferðilega eigi þetta að ganga þannig eftir. Ætla menn að beita lögreglurannsóknum til að ganga úr skugga um þetta og jafnt yfir þá sem eru í sambúð og gift sem og aðra sem ekki eru í sambúð? Ég held að menn séu komnir út á mjög vafasamar brautir að þessu leyti. Ég tel að einvörðungu eigi að líta á þetta sem réttindi feðra til sjálfstæðs fæðingarorlofs án tillits til sambúðarforms. Ég tel það einu færu leiðina í þessu máli.