Fæðingarorlof

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 12:51:05 (2624)

1997-12-18 12:51:05# 122. lþ. 48.5 fundur 343. mál: #A fæðingarorlof# (feður) frv. 147/1997, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[12:51]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst athugasemd hæstv. ráðherra um dræma viðveru eða þátttöku karla og yfirburðaþátttöku kvenna eiginlega óviðeigandi. Í þessu máli, þó þetta eigi stundum við um það sem kalla megi hin mjúku málin, hafa karlmenn þó gert sig gildandi í umræðunni og haft frumkvæði að málinu með tillöguflutningi. Karlmenn hafa verið talsvert áberandi þó þeir hafi e.t.v. lent í því að vera í minni hluta í þingsalnum um stund.

Varðandi það að feður eigi ekki að eiga þennan rétt eða eins og hæstv. ráðherra orðaði það ,,einhverjir menn úti í bæ sem allt í einu eru orðnir feður`` eins og það gerist bara sisona um leið og þeir fréttu af fæðingunni, þá fannst mér þetta ekki mjög heppilegt orðalag né þá orð hans um að rétturinn stofnist ekki við getnaðinn o.s.frv. Ég viðurkenni að það kann að vera vandasamt að draga mörkin. En ég bendi á þann möguleika að ungir foreldrar hvorki í sambúð né gift geta gert samkomulag um að hjálpast að við umönnun barnsins fyrstu vikurnar. Fyrirkomulagið sem hér á að lögfesta sviptir þau þeim möguleika. Faðirinn á í því tilviki ekki réttinn. Ég tel þetta ekki vera jafneinfalt og tiltölulega kaldranaleg ummæli hæstv. ráðherra vísuðu til. Það getur verið þannig ástatt að ungir foreldrar búi hvort um sig heima hjá foreldrum sínum en ágætis samkomulag sé samt sem áður um umönnun barnsins fyrstu vikurnar. Fyrirkomulag þarf ekki að vera þar nein fyrirstaða hvort það er á heimili móður eða hvað.

Ég verð að segja að orðfæri hæstv. ráðherra er dálítið kuldalegt í ljósi þess að hér er um mannlegt samfélag er að ræða. Þetta er félagslegt og mannlegt atriði, ekki sambærilegt atferlisfræðilega við það sem t.d. gerist hjá dýrategundinni felis cattus.