Fæðingarorlof

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 12:56:28 (2627)

1997-12-18 12:56:28# 122. lþ. 48.5 fundur 343. mál: #A fæðingarorlof# (feður) frv. 147/1997, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[12:56]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ágætlega útsofinn, óþreyttur og fæ eiginlega aldrei rasssæri. Ég reis hér sjálfur úr sæti til þess að fagna þessu skrefi. Hinu get ég þó ekki leynt --- ég var að nefna þetta með kynjahlutfallið þar sem það er nokkuð óvenjulegt --- að ég vildi gjarnan sjá hér hærra hlutfall kvenna í þingsalnum en jafnan en í þetta skipti vakti ég athygli á að þær voru fleiri og áhugasamari um málið en við. Út af þessu með ræðuhöldin get ég ekki leynt því að stundum þykir mér hv. 4. þm. Norðurl. e. tala helsti margt í ræðustólnum, þ.e. hann er margorður og kemur gjarnan þrisvar sinnum að sama efninu. Mér finnst það óþarfi en ég fagna því hins vegar að hann skuli standa upp og lýsa ánægju sinni með þetta skref ríkisstjórnarinnar í velferðarátt.