Fæðingarorlof

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 12:58:03 (2628)

1997-12-18 12:58:03# 122. lþ. 48.5 fundur 343. mál: #A fæðingarorlof# (feður) frv. 147/1997, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[12:58]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég get ekki orða bundist yfir þeim orðaskiptum sem hér hafa átt sér stað. Vissulega er þetta mjög mikilvægt jafnréttismál bæði fyrir konur og karla. Það er ekkert skrýtið að hér séu margar konur í salnum. Eins er ljóst að það líður að jólum og sum okkar vilja ekki vera að tefja umræður. Ég vil aðeins ítreka að þó hér sé um að ræða fæðingarorlof feðra í tvær vikur þá er þetta að auki mjög mikilvægt jafnréttismál fyrir konur. Með því móti hefur fjölskyldan öll möguleika á að sinna nýfædda barninu fyrstu tvær vikurnar og þetta er ekki síst réttur barnsins að vera sinnt af báðum foreldrum frá byrjun. Það er mikilvægt upp á síðari tengsl við barnið og því mjög eðlilegt að hér séu bæði konur og karlar. En af tillitssemi við tíma þingsins fyrir þessi jól hef ég ekki haldið langar ræður um málið.