Fæðingarorlof

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 12:59:19 (2629)

1997-12-18 12:59:19# 122. lþ. 48.5 fundur 343. mál: #A fæðingarorlof# (feður) frv. 147/1997, SJS
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[12:59]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég átti þess ekki kost að gera athugasemd við ummæli hæstv. ráðherra í andsvörum áðan þar sem hæstv. ráðherra valdi í seinna svari sínu að víkja að mér sérstaklega og gefur mér ekki annan kost en að biðja um orðið aftur. Það er eingöngu til að segja hæstv. ráðherra að honum er frjálst að þykja ég margorður en jafnljóst er að hæstv. ráðherra verður að láta sig hafa það. Það er ekki eitt af því sem hæstv. ráðherra ræður yfir. Hann ræður ekki yfir ræðustíl og þaðan af síður innihald í ræðum þess sem hér talar. Ég hef tamið mér að ráða því sjálfur og mun gera svo lengi sem ég stend fyrir máli mínu hér á Alþingi. Hitt má svo vel skoða hvort ræðutíma mínum sé verr varið þó ég undirstriki stundum sömu hlutina og endurtaki. Er þeim tíma verr varið en þegar sumir ónefndir ráðherrar koma hingað áberandi illa undirbúnir og langur tími fer í tafs og þagnir?