Afleiðingar af uppsögnum ungra lækna

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 13:51:32 (2635)

1997-12-18 13:51:32# 122. lþ. 48.91 fundur 148#B afleiðingar af uppsögnum ungra lækna# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[13:51]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það var með ólíkindum að hlýða á hæstv. ráðherra. Þegar hann er spurður um hvernig hann ætli að bregðast við þessu neyðarástandi segir hann þingheimi af því að ef allir læknarnir hætti verði vandræði á spítölunum. Það voru svörin. Ef læknarnir hætta þá verða vandræði. Ég fullyrði að þessi þekking var til staðar í þingsölum áður en hæstv. ráðherra kom í ræðustól.

En hver er raunveruleikinn í málinu, virðulegi forseti? Aðstoðarlæknarnir eru með 95 þús. krónur á mánuði þegar þeir útskrifast eftir 6 ára nám í háskóla. Þeir standa flestir sex--átta 26 tíma vaktir í mánuði. Þeir eru með um 170--200 yfirvinnutíma á mánuði. Sá samningur sem þeir felldu einfaldlega um daginn, að minnsta kosti að hluta til (Gripið fram í: Hvert er heildarkaupið?) Heildarkaupið er um það bil 350 þús. kr. fyrir 200 tíma yfirvinnu en samningurinn þýðir að vegna hás hlutfalls yfirvinnu mun hann lækka um 10--20 þúsund. Því þarf ekki að undra að menn felli samninginn. Menn eru ekkert að eyða 24 tímum í vinnu á spítala af því að þeim leiðist svona heima. Það er ekki þannig. Það eru einfaldlega ekki til fleiri læknar til að manna spítalana ef þeir eiga að starfa allan sólarhringinn. Þetta er alvarleiki málsins. Svona er staðan og eigi að ganga að tilskipun ESB þarf að lækka yfirvinnutíma úr 170 niður í 90. Og ætti það að verða þyrfti að minnsta kosti að tvöfalda læknafjölda á spítölunum. Ég vil að lokum segja, virðulegi forseti, að ef það dugar til að fá unga lækna til að draga uppsagnir sínar til baka að bjóða þeim óbreytta yfirvinnuprósentu á ríkisvaldið að grípa í þá útréttu hönd. Að öðrum kosti verður miklum mun dýrara að manna sjúkrahúsin í landinu ef halda á þeim opnum 24 tíma í sólarhring. Takist hæstv. heilbrrh. ekki að ná samningum við unglækna, er ekki annað fyrir ráðherrann að gera en biðja landsmenn að fá ekki hjartaáfall í bráð því fæstir þeirra sérfræðinga sem yrðu að ganga í störf aðstoðarlækna hafa komið nálægt bráðatilfellum í mörg ár.