Afleiðingar af uppsögnum ungra lækna

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 13:59:22 (2638)

1997-12-18 13:59:22# 122. lþ. 48.91 fundur 148#B afleiðingar af uppsögnum ungra lækna# (umræður utan dagskrár), SvG
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[13:59]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Vandinn í þessari deilu eins og öllum kjaradeilum á sjúkrahúsum er sá að það er fjmrn. sem fer með kjarasamningana. Það eru ekki þeir sem úthluta peningunum á spítölunum sem ráða ferðinni í þessari för, heldur fjmrn. meira og minna. Það er fjmrn., sem ræður för, sem hefur ekkert vit á heilbrigðismálum. Það er ógæfa heilbrigðisþjónustunnar að vera með þessa hluti í höndunum á fjmrn. Eftir því sem heilbrrn. er veikara, eftir því kemst fjmrn. upp með meiri yfirgang í málum af þessu tagi. Það er veruleikinn sem blasir við, herra forseti. Þess vegna er út af fyrir sig rétt að kalla á hæstv. fjmrh. og hitt er líka rétt að auðvitað verður að ræða þessi mál við hæstv. heilbrrh. sem fer með málaflokkinn.

[14:00]

Ég held að við þurfum í þessum efnum að horfa á þrennt. Í fyrsta lagi að menntun hjá þeim hópi sem hér er um að ræða er meira og meira í alþjóðlegu umhverfi bæði að því er varðar tekjusamanburð, að því er varðar vinnuskipulag, að því er varðar tækni og að því er varðar allar aðstæður. Í öðru lagi þurfum við að velta því fyrir okkur hvort viðbragðsflýtir kerfisins hjá okkur sem stöndum frammi fyrir vandamálum af því tagi sem hér eru uppi sé í raun og veru ekki allt of lítill og hvort ekki sé nauðsynlegt að núna verði til sérstakt teymi heilbrrn. og fjmrn. sem fer í málið. Ég vil segja það við heilbrrh., af nokkurri reynslu, að fjmrn. er ekki treystandi til þess að leysa málið. Heilbrrn. verður að fara inn í málið nú þegar af fullum myndarskap og fullum skörungsskap. Í þriðja lagi vil ég segja í tilefni af orðum hv. þm. Guðna Ágústssonar að mér finnst það skynsamleg ábending að losa um numerus clausus-reglurnar í Háskóla Íslands vegna þess að þær eru ein af ástæðunum fyrir þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir.