Afleiðingar af uppsögnum ungra lækna

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 14:04:33 (2641)

1997-12-18 14:04:33# 122. lþ. 48.91 fundur 148#B afleiðingar af uppsögnum ungra lækna# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖS
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[14:04]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hv. þm. Guðni Ágústsson spyr um það hver eru grunnlaun alþingismanna í samanburði við grunnlaun unglækna og þau eru 2,5 sinnum hærri en grunnlaun unglækna.

Herra forseti. Til umræðunnar var ekki stofnað til þess að ræða um kjaramál unglækna eða kjaramál læknastéttarinnar. Til umræðunnar var stofnað til þess að fá það fram hjá hæstv. heilbrrh. til hvaða ráða hún ætlar að grípa í kjölfar þeirrar alvarlegu stöðu sem er komin upp. Ég kem fram með þær upplýsingar að yfirlæknir slysadeildar Sjúkrahúss Reykjavíkur hefur tilkynnt formlega með bréfi til yfirmanna sinna að það ríki neyðarástand. Hvenær ríkir neyðarástand? Samkvæmt hans skilgreiningu ríkið það þegar ekki er hægt að anna venjulegu ástandi með þeim mannafla sem er fyrir hendi. Hæstv. heilbrrh. sagði að það væri ekki hægt að gera það nema bara ef hægt væri að tryggja að ekki kæmi holskefla slysa. Hver á að tryggja það, herra forseti? Það eina sem hefur komið fram af hálfu stjórnarflokkanna í umræðunni er að hv. þm. Guðni Ágústsson kemur hingað og biður hæstv. heilbrrh. vægðar. Hann segir: Stjórnarnandstaðan á að snúa máli sínu til Sjálfstfl. Það kann vel að vera að það sé mat Framsfl. á frammistöðu hæstv. heilbrrh. Það kann vel að vera að við í þessu þingi eigum að hætta að ræða við hæstv. heilbrrh. og ég verð að segja það, herra forseti, að ég get ekki dregið aðra ályktun en að þetta sé rétt ábending hjá hv. þm. vegna þess að ég kom hingað og vildi ræða við hæstv. heilbrrh. um alvarlega stöðu í kjördæmi mínu. Ég kom með spurningar og hún sagði ekki eitt einasta orð. Hún kom ekki með nein svör. Hvað sagði hæstv. heilbrrh.? Staðan á FSA er þannig að erfitt er að halda uppi bráðaþjónustu. Staðan á Ríkisspítölum verður mjög erfið upp úr áramótunum og staðan á Sjúkrahúsi Reykjavíkur er þannig að það er hægt að halda sjó ef ekki verður holskefla slysa.

Herra forseti. Hæstv. heilbrrh. kemur hingað upp og dregur upp ívíð dekkri mynd en ég og hver eru svörin? Svörin eru engin. Það komu engin svör frá þessum hæstv. heilbrrh. og flokkssystkini hennar leyfa sér að koma hingað upp og segja: Talið við hæstv. fjmrh. Er Framsfl. að afsala sér þeirri ábyrgð á heilbrigðismálunum sem hann hefur tekið að sér?