Afleiðingar af uppsögnum ungra lækna

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 14:06:52 (2642)

1997-12-18 14:06:52# 122. lþ. 48.91 fundur 148#B afleiðingar af uppsögnum ungra lækna# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[14:06]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Eitt er ljóst eftir umræðuna að deilan verður ekki leyst í þingsal. Ég fór yfir það í fyrri ræðu minni hvernig stjórnendur spítalanna hafa skipulagt vaktafyrirkomulag fram að áramótum vegna þess erfiða ástands sem ríkir vegna uppsagna unglækna.

Áður hefur verið rætt um það að þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta gerist. Hv. þm. Svavar Gestsson kom upp áðan. Ég hygg að hann hafi upplifað sem heilbrrh. það lengsta verkfall hjá læknastéttinni sem hefur verið og hann veit hvers konar skipulag þarf til að koma til móts við þjónustuna. Það hafa stjórnendur sjúkrahúsanna gert.

Á fjárlögum ársins er miklum fjármunum varið til að auka fjármagn til að hækka laun lækna. Miklar skipulagsbreytingar þarf til svo að unglæknar verði ánægðir. Þegar er búið að koma þeim málum í vissan farveg með samkomulagi og það þarf að vinnast hratt með stjórnendum spítalanna. Við þurfum líka að útskrifa fleiri lækna. Það er alveg ljóst. Við erum í harðri samkeppni við erlenda aðila vegna þess að við erum að útskrifa frábæra lækna og við þurfum að koma til móts við það. En ég endurtek að við munum ekki leysa deiluna í þingsal en hana þarf að leysa.