Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 15:01:41 (2669)

1997-12-18 15:01:41# 122. lþ. 48.6 fundur 43. mál: #A almannatryggingar# (slysatrygging sjómanna) frv. 148/1997, sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[15:01]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég hef á tilfinningunni að nokkurs misskilnings gæti í máli hv. 12. þm. Reykv. í umfjöllun um þetta mál, sérstaklega með skírskotun til ummæla minna. Ég tel það liggja ljóst fyrir að þetta frv. er í fullu samræmi við íslenskar stjórnskipunarreglur. Í raun og veru má segja að flutningur þess sé nauðsynlegur til að við getum fullnægt jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Verið er að tryggja íslenskum sjómönnum jafnan rétt til tryggingabóta, enda hafi verið greidd tryggingaiðgjöld þeirra vegna, burt séð frá því hvort þeir starfa á skipum sem skráð eru á Íslandi eða erlendis. Hér er því verið að stíga ótvírætt skref í jafnræðisátt í samræmi við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Ég sé ekki að þessi löggjöf stríði gegn markmiðum annarra laga eða reglna, þvert á móti.

Varðandi ábyrgð á skipum mega menn ekki misskilja ákvæði í alþjóðasamþykktum sem kveða á um að fánaríki beri ábyrgð á skipum undir þeirra fána. Einhver dæmi eru um að skip séu skráð undir svokölluðum hentifána til að losna undan alþjóðlegum reglum, t.d. um veiðistjórnun, en það eru líka fjölmörg dæmi og vaxandi um að skipum sé flaggað undir aðra fána vegna þess að þau hafa fengið réttindi á grundvelli alþjóðlegra samninga, ýmist á alþjóðlegum hafsvæðum eða innan lögsögu annarra ríkja og við því er ekkert að segja. Miklu fremur mætti segja það mjög æskilega þróun að veiðar geti farið fram með þeim hætti. Þannig fer því víðs fjarri að í öllum tilvikum séu menn að skjóta sér undan reglum þó skipt sé um fána á skipi. Aðalatriðið er að reglur um ábyrgð fánaríkisins gilda gagnvart veiðistjórnun, gagnvart reglum um veiðar, meðferð veiðarfæra og svæði, hvort skip hafa rétt til veiða í landhelgi og þar fram eftir götunum, þá er það fánaríkið sem ber ábyrgð gagnvart skipinu í þeim efnum. En það kemur spurningunni um það hvort íslensk löggjöf tryggi öllum íslenskum sjómönnum sama rétt til tryggingabóta ekki við, enda eru greidd af þeim tryggingagjöld. Það er allt annar hlutur og þessu má að mínu mati ekki rugla saman. Ég held að athugasemdir hv. 12. þm. Reykv. séu á misskilningi byggðar að þessu leyti og tel að frv. sé í fullu samræmi við jafnréttisákvæði íslenskrar stjórnarskrár og stangist hvergi á við alþjóðlegar reglur um ábyrgð fánaríkja gagnvart skipum.