Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 15:37:32 (2671)

1997-12-18 15:37:32# 122. lþ. 48.7 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, Frsm. minni hluta PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[15:37]

Frsm. minni hluta félmn. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sagði að í sveitarfélagi hennar væri leigan þungbær vegna þess að ekki væru veittar húsaleigubætur og þess væru dæmi að fólk sækti yfir bæjarmörkin yfir í næsta sveitarfélag, sem er Reykjavík og liggur við hliðina, og leigði þar.

Það sem ég vildi spyrja hv. þm. um var: Telur hún að ásókn manna í húsnæði í Reykjavík og það að menn vilja ekki leigja í Kópavogi komi fram í því að þeir sem leigja út frá sér í Kópavogi standi með íbúðirnar auðar eða hvort þeir muni þurfa að lækka leiguna til að mæta þessum skorti á eftirspurn? Telur hann ekki að í Reykjavík verði eftirspurnin enn þá meiri, þ.e., að leigan hækki? Eru ekki dæmi um að húsaleigubætur hreinlega hækki leigu eins og þekkt er víða um lönd?

Önnur spurning er sú hvort hv. þm. telur eðlilegt að einstaklingur sem er með 125 þús. kr. tekjur á mánuði fyrir sjálfan sig og engan annan fái óskertar húsaleigubætur en fimm eða sex manna fjölskylda, með tvö börn eða þrjú, fái sömu heildarupphæð, þ.e., þegar heildartekjur fjölskyldunnar fara yfir 125 þús. kr. skuli það vera skert nákvæmlega eins og einstaklingsins sem lifir bara einn á þessum tekjum?