Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 17:23:38 (2689)

1997-12-18 17:23:38# 122. lþ. 48.7 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[17:23]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hér var gefið í skyn áðan að sveitarfélögin væru að fá 280 millj. kr. vegna húsaleigubótanna. Þessar 280 millj. kr. fela hins vegar í sér miklu víðtækara samkomulag. Þannig er að ríkið hefur núna borgað um 200 millj. í húsaleigubætur og það er einungis 60% hluturinn. Sveitarfélögin hafa verið að borga 40% hlutinn, þ.e. u.þ.b. 120 millj. Ef Akureyri, Kópavogur, Reykjanesbær og þessi nýju sveitarfélög eru talin með, þá hefði hlutur ríkisins aukist og það er metið á 50 millj. kr., þ.e. hlutur ríkisins fer úr 200 millj. upp í 250 millj. Við það bætast 55 millj. í skatttekjur sem á að bæta sveitarfélögunum, það eru því 305 millj. kr. sem þetta samkomulag gerir ráð fyrir að fari í hlut sveitarfélaganna frá ríkinu vegna húsaleigubótanna.

Það kemur fleira til í samkomulaginu. Þar er ríkið að greiða 95 millj. kr. til sveitarfélaganna vegna fatlaðra barna á leikskólum. Samtals eru þetta 400 millj. sem ríkið skuldar þá sveitarfélögunum samkvæmt þessu samkomulagi. Á móti tekur ríkið við vinnumiðlunum frá sveitarfélögunum upp á 120 millj. kr. Þá standa eftir 280 millj. sem ríkið greiðir sveitarfélögunum inn í jöfnunarsjóð, m.a. vegna húsaleigubótanna, en ekki bara vegna þeirra. Þetta er miklu víðtækara samkomulag. Ég vildi bara reyna að útskýra þetta hér. Það er engin ástæða til að halda að sveitarfélögin séu hlunnfarin í þessum samningum, alls ekki, enda hafa þau ekki verið fræg fyrir að láta hlunnfara sig fjárhagslega í samskiptum við ríkið.