Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 17:25:46 (2690)

1997-12-18 17:25:46# 122. lþ. 48.7 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[17:25]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég heyrði þá skýringu sem hv. þm. kom með áðan úr ræðustól þegar hæstv. ráðherra skýrði þetta nokkuð þannig að mér var kunnugt um þetta. Engu að síður er ég að benda á að í gögnum sem komu frá nefnd sem var að vinna að þessu máli kom fram að sveitarfélögin töldu að þetta væru um 620 millj. kr. Eitthvað nálægt þessu hefur Þjóðhagsstofnun metið þetta líka. Þess vegna held ég þetta sé vanáætlað þegar farið er út í að víkka húsaleigubótakerfið, fyrir það fyrsta að skylda öll sveitarfélögin til að greiða húsaleigubætur og síðan er líka verið að fara út í þessa kerfisbreytingu.

Hv. þm. nefndi að sveitarfélögin fengju líka skattlagningu bótanna. Það er ástæða til að halda því til haga líka sem ég gleymdi áðan af því að hv. þm. nefndi það, að þetta fólk sem núna er í leiguíbúðum hjá sveitarfélagi og hefur fengið niðurgreiðslu og ekki verið með húsaleigubætur fer upp í raunkostnað í leigunni og þarf núna að borga skatt. Það eru komnir nýir skattgreiðendur þarna inn. Þetta gæti verið fólkið sem er skilið eftir annaðhvort með einhvern mismun upp á 10--20 þús. kr. eða hópur sem hreinlega dettur út úr kerfinu og þarf allt í einu að fara að borga skatt ef það fær húsaleigubætur. Það er rétt að halda því til haga. Er vitað hvort sveitarfélögin muni nota þann pening sem þau fá frá ríkinu vegna skattlagningar húsaleigubótanna til að greiða fólki þann mismun sem verður milli raunkostnaðar á leigunni og húsaleigubóta? Ég hef ekki hugmynd um það og kannski væri fróðlegt að fá að heyra það frá hv. varaformanni félmn. hvort það hefði sérstaklega verið rætt í nefndinni.