Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 17:32:54 (2694)

1997-12-18 17:32:54# 122. lþ. 48.7 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[17:32]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu hafa sveitarfélögin rétt til að greiða fólki hærri bætur en fram kom í lögunum og þarf ekki einu sinni lagatexta til þess. Þau geta greitt hærri bætur til leigjenda þótt ekki sé til lagabókstafur um það. Ef marka má það sem fram kemur á blaðsíðu 13. í frv. er verið að áætla, og á einhverju hlýtur sú áætlun að byggja, að þetta séu um 550 manns eða fjórðungur af þeim sem nú eru í leiguíbúðum sveitarfélaga sem detta út úr kerfinu eins og ég kalla það. Það er enginn smávegis fjöldi. Ég á mjög bágt með að trúa því að hægt sé að flokka allt þetta fólk undir hálaunahópa. En auðvitað kemur þetta allt í ljós og ég veit að hv. þm. getur ekki svarað því til frekar en ég.

Varðandi skýrsluna sem ég er að kalla eftir hygg ég að það skýrist fljótlega á fyrstu mánuðum þessa árs eða kannski um mitt árið hvað sveitarfélögin ætla sér að gera í þessu efni. Hv. þm. nefnir að sveitarfélögin hafa tíma fram í nóvember til að setja sér ákveðnar reglur þar um. Þýðir það að mati þingmannsins að sveitarfélögin muni hafa húsaleigubæturnar óbreyttar næsta árið, þ.e. að fara ekki með leiguna upp í raunkostnað fyrr en árið 1998? Er hv. þm. að nefna það hér? Mér fannst liggja í orðum þingmannsins að hún væri að tala um að þetta yrði óbreytt á næsta ári, þetta yrði ekki sú kerfisbreyting sem ég og fleiri þingmenn óttast fyrr en á árinu 1998 og þess vegna verði ekki hægt að setja fram skýrslu fyrr en þá væntanlega eftir nóvember. En ég hygg að þau hafi heimild til þess að fara með leiguna upp í raunkostnað og mörg hver muni örugglega nýta sér það eins fljótt og þau geta. Ég trúi ekki öðru en hv. þm. vilji eins og ég og fleiri --- hv. þm. skrifar undir með fyrirvara --- að hæstv. félmrh. geri þinginu eins fljótt og hægt er grein fyrir stöðu þessara mála og hvernig sveitarfélögin ætla að haga framkvæmdum á húsaleigubótakerfinu.