Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 17:47:32 (2698)

1997-12-18 17:47:32# 122. lþ. 48.7 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, Frsm. minni hluta PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[17:47]

Frsm. minni hluta félmn. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað eru lán ekki tekjur í þeim skilningi að fólk þarf að borga þau til baka en þetta er ætlað til ráðstöfunar, ætlað til framfærslu. Námslán eru ætluð til framfærslu. Þetta er ekki til að kaupa bíl eða húsnæði eða eitthvað slíkt, þetta er ætlað til framfærslu. Þess vegna segi ég: Þessi lán eru allt of rífleg. Þau taka tillit til húsnæðiskostnaðar sem er greiddur annars staðar. Þau taka tillit til barna sem er greitt með annars staðar þannig að við erum að tvítryggja. Það er það sem ég er að setja út á. Þetta kemur fólkinu í þá stöðu að það verður ákveðið neyslustig sem er mjög hátt hjá námsmönnum og svo þegar vesalings fólkið fer að vinna mætir það þeim harða veruleika að það þarf að borga skatta, það fær ekki styrki og allt í einu er tilveran orðin ákaflega grá. Ég hugsa að mörgum manninum sem kemur úr háskólanum bregði illilega þegar hann fer að vinna og fá háu tekjurnar sem verða að engu vegna þess að fjmrn. tekur allt saman í skatta.

Varðandi það að hv. þm. er á móti því að útiloka þá sem búa í herbergjum geri ég ráð fyrir að hann styðji brtt. um að fella niður það ákvæði í frv.