Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 17:55:02 (2702)

1997-12-18 17:55:02# 122. lþ. 48.7 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[17:55]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ráðherra segist ætla að fylgjast reglulega með framkvæmdinni á húsaleigubótakerfinu þegar það flyst núna til sveitarfélaganna og það er auðvitað mjög gott og gilt en ég hvet til að hann geri þinginu grein fyrir því sem fyrst hvernig framkvæmdinni verði háttað.

Ráðherra nefnir að hann ætli að minna sveitarfélögin á skyldur sínar ef þau nýta ekki þetta fjármagn til að greiða húsaleigubætur. Mér finnst það alveg rétt ábending sem ég beindi til hæstv. ráðherra áðan að áður en sveitarfélögin fara að huga að framkvæmdinni og hvernig þau ætla að haga þessu máli, láti hann vita af þeirri skoðun sinni. Ég hygg að það sé skoðun ráðherrans að hann gerir ráð fyrir að leigjendur eigi að vera jafnsettir eftir þessa breytingu og áður. Ég spyr ráðherrann um það: Erum við ekki sammála um það og er það ekki skilningur ráðherrans að hann líti svo á að leigjendur eigi að vera jafnsettir eftir breytinguna og eftir að sveitarfélögin hafa farið í þessa kerfisbreytingu og þeir eru nú? Þá á ég bæði við þá sem eru í leiguíbúðum sveitarfélaga og þá sem fá húsaleigubætur.

Það er ekki rétt sem hæstv. ráðherra sagði um það samkomulag sem gert var á sínum tíma við ríkisvaldið þegar við lögðum af stað með húsaleigubætur. Það var ákvörðun um að fækka lítillega félagslegum íbúðum tímabundið, mig minnir að það hafi verið um 50 íbúðir, og það voru alls ekki teknar 400 millj. úr Byggingarsjóði verkamanna á þeim tíma. Það er ekki rétt munað hjá hæstv. ráðherra. Þetta var fækkun einungis tímabundið um 50 félagslegar íbúðir sem þá voru 500, og vil ég minna á það, en eru núna í tíð hæstv. ráðherra komnar niður í 170. Svo mikil var breytingin varðandi fjölgun á félagslegum íbúðum og þar með leiguíbúðum eftir að hæstv. ráðherra tók við. Hæstv. ráðherra nefnir að við endurskipulagningu á Húsnæðisstofnun geti hann fjölgað félagslegum leiguíbúðum. Ég spyr hvernig ráðherrann ætli að fara að því.