Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 17:57:19 (2703)

1997-12-18 17:57:19# 122. lþ. 48.7 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[17:57]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ein leiðin gæti verið sú að veita húsbréfalán út á fleiri en eina íbúð í því skyni. Miðborgarsamtökin í Reykjavík hafa lagt mikla áherslu á það og óskað sérstaklega eftir því að opnuð væri lánsheimild fyrir annarri íbúð hjá einstaklingum. Það er hægt að gera þetta með ýmsu öðru móti. Það er líka hægt, eins og ég nefndi áðan, að breyta félagslegum eignaríbúðum í félagslegar leiguíbúðir o.s.frv.

Hv. þm. spurði hvort ég vildi ekki að leigjendur væru jafnsettir eða ætlaðist ekki til að leigjendur væru jafnsettir eftir breytinguna. Ég ætlast til að tekjulágir leigjendur eigi að vera verulega betur settir eftir þetta. Hitt kann aftur að vera að tekjuhærri leigjendur, t.d. hjá Reykjavíkurborg, sem fá ekki húsaleigubætur verði verr settir. En það er ekki frv. að kenna.