Vörugjald af ökutækjum

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 20:55:40 (2711)

1997-12-18 20:55:40# 122. lþ. 48.12 fundur 329. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (dráttarbifreiðar, mengunarlaus ökutæki) frv. 140/1997, Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[20:55]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. frá efh.- og viðskn. vegna 329. máls, sem er frv. til laga um breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um þetta mál og leggur til brtt. í tveimur liðum. Fyrsta tillagan er sú að við 1. gr. bætist nýr stafliður, a-liður, svohljóðandi: 1. tölul. orðast svo: Hópferðabifreiðar, þ.e. ökutæki sem aðallega eru ætluð til fólksflutninga, sem skráðar eru fyrir 18 farþega eða fleiri að meðtöldum ökumanni, skulu undanþegnar vörugjaldi.

Þetta vörugjald er 5% nú og lagt er til að gjaldið á rútur verði fellt niður. Þá er enn fremur lagt til að í stað heimildarákvæðis nú í lögunum verði afdráttarlaust að ökutæki sem hafa í för með sér hverfandi mengun og eru knúin óhefðbundnum orkugjafa, svo sem rafhreyfli eða vetni, verði undanþegin gjaldskyldu. Um þetta var nokkuð rætt. Hugmynd nefndarinnar með þessari breytingu er sú að heimilt verði í tilraunaskyni að flytja inn bifreiðar sem menga ekki svo teljandi sé hvernig sem þær eru knúnar. Í flestum tilvikum munu slíkar bifreiðar vera knúnar með rafhreyfli eða með vetni. Það liggur hins vegar fyrir að ef innflutningur á slíkum ökutækjum verður hluti af markaðnum sem skiptir einhverju máli þá að sjálfsögðu gengur ekki að þær bifreiðar séu gjaldfrjálsar og taki ekki þátt í kostnaði við samgöngumannvirki. En á meðan sá innflutningur er einungis í tilraunaskyni þykir sjálfsagt að hvetja til slíkrar tilraunanotkunar.