Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 21:04:34 (2714)

1997-12-18 21:04:34# 122. lþ. 48.14 fundur 328. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (lífeyrisiðgjöld o.fl.) frv. 141/1997, ÁE
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[21:04]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég skrifa undir þetta nál., sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson var að gera grein fyrir, með fyrirvara. Ég vildi í örfáum orðum gera grein fyrir, herra forseti, í hverju fyrirvari minn felst. Hann er fyrst og fremst gagnvart tveimur þáttum.

Í frv. er sérstakt ákvæði um skattfríðindi viðbótarsparnaðar upp á 2%. Þetta á sér þá forsögu að þegar mál í hinni frægu lífeyrisnefnd fjmrh. voru að komast í strand vegna þess að þetta mál var að þróast út frá forsendum aðila vinnumarkaðarins og fyrst og fremst verkalýðshreyfingarinnar. Þeir sem voru mjög óhressir með hvernig staða mála var voru fyrst og fremst þeir aðilar sem tengdust fjáraflafyrirtækjum Sjálfstæðisflokksins. Þá var útbúin smádúsa fyrir þá sem fólst í því að leggja til að 2% viðbótariðgjald væri frádráttarbært frá skatti, þannig að það væru ekki lengur 4% frádráttarbær heldur 6%. Þetta hugnaðist baklandi Sjálfstfl. alveg ágætlega því vitaskuld er þetta hagkvæmt fyrir þá sem hafa nægjanlegt milli handanna og geta lagt fyrir í lífeyrissparnað, bætt við 2% án þess að þurfa að verja því til lífsframfæris að öðru jöfnu. Þessi tillaga sem kom fram á lokastigi gerði það að verkum að menn stóðu sameiginlega að því nál. sem var síðan grundvöllur fyrir frv. um lífeyrisréttindi sem er á dagskrá síðar í kvöld. Svo ánægjulega vill til að samstaða ríkir um það mál í hv. efh.- og viðskn. og erum við stjórnarandstæðingar mjög sáttir við þá lendingu.

Mér fannst, herra forseti, þegar þetta mál kom fram þinginu, þ.e. þessi 2% viðbótarfrádráttur, að þetta væri dálítið ógeðfelld eða ekki sérstaklega skemmtileg aðferð, ekki síst í ljósi þess hvernig hún kom til. Það var verið að hygla þeim aðeins sem betur mega sín í þjóðfélaginu undir formerki aukins sparnaðar. Hægt er að færa rök fyrir því að þetta hafi líklega ekki mikil áhrif á sparnað, e.t.v einhver, og hefði þá átt að skoðast í víðara samhengi ef menn voru fúsir til að leggja til svona tillögur vegna þess að þetta kostar ríkissjóð um 1,5 milljarða. Tölurnar eru kannski ekki mjög nákvæmar en það er alveg augljóst að þessi aukni frádráttur leiðir til tekjutaps fyrir ríkissjóð.

Ég hefði kosið, herra forseti, þegar ríkissjóður er að afhenda 1,5 milljarða af sínu fé, að skoðað hefði verið betur með hvaða hætti það nýttist. Við höfum verið að takast á um það í fjárlagaumræðunni síðustu daga og væri hægt að nefna fjölmarga þætti sem þyrftu meira á þeim 1,5 milljörðum að halda en einmitt þeir sem hafa hæstu tekjurnar í þjóðfélaginu.

Ég geri einnig athugasemd við annað atriði í frv. Þar er sérstaklega lagt til skattfrelsi á Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins og Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Það er ekki einu sinni víst að þurft hefði að setja Þróunarsjóð sjávarútvegsins undir þessi skattleysismörk, en benda má á að skattleysi Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins brýtur hugsanlega í bága við EES-samninga og e.t.v. kallar þetta á athugasemdir síðar. Hugsunin á bak við þá athugasemd er sú að Nýsköpunarsjóðurinn er að styrkja ýmiss konar fyrirtæki, eins og önnur fyrirtæki gera reyndar, lána til fyrirtækja sem önnur fjármálafyrirtæki gera --- ég nefni Þróunarfélagið, Eignarhaldsfélag Alþýðubankans svo nokkur séu nefnd --- að þá er um að ræða misjafna samkeppnisstöðu þessara fyrirtækja á markaði vegna þess að Nýsköpunarsjóðurinn býr þá við ívilnandi skattalög.

Við fengum athugasemdir í hv. efh.- og viðskn. um þetta atriði frá eftirlitsaðilum EFTA, þ.e. að þetta gæti orðið álitamál þegar fram liðu stundir. Það var tillaga okkar að menn mundu skoða þann þátt aðeins betur og kannski ekki flýta sér mjög við þá lagasetningu en menn kusu nú ekki að fara þá leið. Þetta er svo sem ekki stórt mál en hins vegar á maður að vera mjög varkár í þeim þáttum sem snúa að því að kalla e.t.v. fram athugasemdir vegna þess að ekki er um jöfn samkeppnisskilyrði að ræða. Þetta var fyrst og fremst minn fyrirvari. Ég sá ekki ástæðu til, herra forseti, að leggjast gegn þessu máli. Það tengist lífeyrissjóðsmálinu sem ég styð fullkomlega. Ég hefði hins vegar kosið að aðferðin hefði verið útfærð á annan hátt og ég hefði vel getað séð fyrir mér að menn hefðu getað varið 1,5 milljörðum af sköttum betur en hér er gert. Einnig að hægt hefði verið að verja þeim betur til að auka sparnað fremur en að auka frádrátt með þeim hætti sem hér er lagt til. Ég mun hins vegar ekki, herra forseti, gera neitt meira í því að vinna gegn því að þetta mál nái fram að ganga. Það nýtur stuðnings okkar allra í efh.- og viðskn. þótt ýmsir okkar hafi vissa fyrirvara gagnvart einstökum atriðum málsins.