Aukatekjur ríkissjóðs

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 21:33:32 (2720)

1997-12-18 21:33:32# 122. lþ. 48.15 fundur 304. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (dómsmálagjöld o.fl.) frv. 143/1997, Frsm. minni hluta ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[21:33]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. vekur athygli mína á dagsetningum laganna aftur og aftur. Ég sagði að mér væri alveg fullkunnugt um að þessu ákvæði hefði ekki verið breytt í mörg ár. Mér er líka fullljóst að krónuupphæð sem er nokkurra ára gömul hefur annað verðgildi í dag. Ég held að ég og hv. þm. séum báðir með það alveg á tæru.

Ég ítreka enn og aftur það sem ég sagði áðan og sem málið snýst um, herra forseti. Það er að ríkisvaldið er að nota fjárhagsvanda fólks til skattlagningar, það hefur verið að því og er að auka gjaldtöku af fólki í fjárhagserfiðleikum. Um það snýst málið. Það snýst ekki um að finna einhverja eðlilega hækkun á töxtum sem væri eðlilegt að breyta. Það er fullt af slíkum breytingum í frv. sem ég hef ekki verið að gera athugasemdir við. Ég og við í minni hlutanum höfum gert athugasemdir við tvær greinar frv. Önnur þeirra snýr að skattlagningu á fólk sem verður fyrir fjárnámi og hin snýr að fólki sem verður fyrir því að beðið er um nauðungarsölu á eignum þess. Það er það sem er svívirðilegt í frv. og það er það, herra forseti, sem við erum að reyna að knýja á um að verði dregið til baka.