Aukatekjur ríkissjóðs

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 21:56:11 (2725)

1997-12-18 21:56:11# 122. lþ. 48.15 fundur 304. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (dómsmálagjöld o.fl.) frv. 143/1997, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[21:56]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er ekkert launungarmál og ég sagði það að þessi gjöld hefðu verið hækkuð a.m.k. einu sinni, svo ég muni eftir, í ríkisstjórnartíð Steingríms Hermannssonar og fjármálaráðherratíð Ólafs Ragnars Grímssonar, það liggur alveg fyrir. Þau voru að vísu til staðar, ég hygg flest eða a.m.k. öll og höfðu lengi verið ... (Gripið fram í: Flest eða a.m.k. öll?) Flest eða öll --- og ég þakka hv. þm. fyrir hjálpina. (Gripið fram í.) Ég þakka fulltrúa Framsfl. sem greinilega er að vekja athygli á því að Framsfl. er mættur á sviðið og hjálpsemin uppmáluð. Það er nú gott.

Þessi gjöld voru sem sagt hækkuð þá. Ég hygg að vísu að þá hafi það aðallega verið ýmis leyfisgjöld sem voru mest hækkuð, ekki dómsmálagjöldin svo mikið, ef minni mitt svíkur ekki, en það skiptir ekki öllu máli. En málsvörnin er sem sagt áfram sú sama hjá hv. þm., að af því að þetta var hækkað af einhverjum fyrri ríkisstjórnum þá sé það bara allt í lagi þó Sjálfstfl. sé á móti því, eða hvað, að hafa þessi gjöld eða hafa þau svona há? (VE: Ekki einhverjum. Það hlýtur að vera einhver ákveðinn gæðastimpill á ... ) Af þessum aðilum sem ég hef hérna gert grein fyrir. En út af fyrir sig getum farið yfir alla þessa sögu og ég er alveg viss um að það hefur ábyggilega oft verið blómlegt á fyrri áratugum í fjármálaráðherra- og ríkisstjórnartíð Sjálfstfl. í gjaldtöku af þessu tagi. Þau voru sannanlega ekki fundin upp á árunum 1988--91 heldur miklu eldri í flestum ef ekki öllum tilvikum. Það held ég að sé nú mergurinn málsins.

En það er greinilegt, herra forseti, að það kemur við viðkvæman blett á þingmönnum eða talsmönnum Sjálfstfl. þegar slík skattamál eru rædd undir þessum formerkjum. Það er nefnilega venjan að Sjálfstfl. hefur oft komist upp með það að vaða um þjóðfélagið fyrir kosningar og lofa skattalækkunum á báða bóga og í allar áttir gagnvart m.a. hlutum af þessu tagi. En svo standa þær staðreyndir yfirleitt eftir að minnst af því er efnt. (Forseti hringir.) Eins og t.d. þetta hér. Ætli mætti ekki grafa upp einhverjar góðar stjórnarandstöðuræður frá Sjálfstfl. um þessa skatta og það (Forseti hringir.) væri fróðlegt að lesa þær nú í samhengi við það sem er að gerast.