Aukatekjur ríkissjóðs

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 21:58:42 (2726)

1997-12-18 21:58:42# 122. lþ. 48.15 fundur 304. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (dómsmálagjöld o.fl.) frv. 143/1997, LB
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[21:58]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Fólk í fyrirrúmi, greiðsluerfiðleikar heimilanna, greiðsluerfiðleikastofnanir á hvert horn o.s.frv. Kannast menn ekki eitthvað við slík kosningaloforð? (Gripið fram í.) Alla vega hljóma þau í mínum eyrum þannig að ég man ágætlega eftir þeim. Greiðsluerfiðleikalán, greiðsluaðlögun, stofnanir til þess að bjarga heimilunum, heimilin skuldsett o.s.frv.

Hvað birtist svo hér, virðulegi forseti? Það er verið að leggja á dómsmálagjöld sem eru helmingi hærri en kostar að reka dómstólana í landinu. Það er rúmlega 100% arðsemi, ef tekið er mið af rekstri dómstólanna.

[22:00]

Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því, virðulegi forseti, að réttlætiskerfið í landinu væri algerlega rekið af þeim sem minna mega sín, þeim sem eiga í greiðsluerfiðleikum. Og ekki bara rekið af þeim heldur er verulegur hagnaður af þeim. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir þessu. Ég hafði einhvern veginn ekki ímyndað mér að jafnógeðfelldir hlutir --- ég get vart kallað það annað --- ættu sér stað. Ég gerði mér bara enga grein fyrir þessu fyrr en ég rak augun í þetta við 1. umr. við frv. 660 millj. í dómsmálagjöld, en 300 millj. kostar að reka réttlætiskerfið í landinu. Það er ekki nema von að spurt sé, virðulegi forseti, hvar er fólkið sem átti að vera í fyrirrúmi? Hvar er það fólk? Og hvar eru talsmenn þess fólks? Nú eiga þeir aðild að ríkisstjórn. Nú eiga þeir hlut að máli. Nú er komið að efndum. Nei, þeir sem af einhverjum ástæðum geta ekki greitt skuldirnar sínar skulu þá a.m.k. reka dómstólakerfið í landinu. Það er alveg lágmark. Það er lágmark að þeir reki það. (Gripið fram í.) Skyldi nú engan undra, virðulegi forseti, að hv. 2. þm. Suðurl. laumi sér úr salnum undir þessum ósköpum.

Ég ætla, virðulegi forseti, ekki að setja á langa ræðu vegna þessa, en get þó tekið undir það með hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni að það voru á sínum tíma viss vandkvæði við það fyrirkomulag sem þá ríkti því lögmenn leyfðu sér stundum að nota hið opinbera sem innheimtustofnun fyrir sig. Við því varð að bregðast, ég held að það sé alveg hárrétt. En hitt er að það þurfti nú kannski ekki að bregðast við því á þennan hátt. Sú röksemdarfærsla sem hér hefur verið færð fyrir hækkun þessara gjalda hefur eiginlega verið sú að þetta hafi bara ekkert hækkað mjög lengi. Rekstur dómstólanna kostaði á sínum tíma 240 millj. kr. að mig minnir 1993. Þá hefur sennilega verið reiknað með 200% arðsemi af slíkum gjöldum og nú er hún komin niður í rúmlega 100 og það þykir þá ekki nægjanlega gott. En að þetta skuli fara í þennan farveg, virðulegi forseti, er eiginlega háðung fyrir þingið og ríkisstjórnina. Það er eiginlega ekki hægt að orða þetta öðruvísi. Þetta er eitthvað það ógeðfelldasta sem ég hef séð hér, að í miðju góðærinu, í miðjum hagvextinum, í miðju dýrðarríkinu skuli fundin sú leið að leggja gjöldin á þá sem ekki geta borgað reikningana sína, og það á meðan fulltrúar ,,fólks í fyrirrúmi`` eru í ríkisstjórn.

Virðulegi forseti. Ég hef eiginlega varla geð í mér að halda langa ræðu um jafnógeðfellda hluti og hér er um að ræða. Ég hef varla geð í mér til að ræða þá. En ég hlýt, virðulegi forseti, að kalla eftir því að þeir sem óku um héruð hvort heldur á mótorhjólum eða öðrum farartækjum og lofuðu að bjarga öllu ef þeir kæmust til valda komi nú upp í þennan ræðustól og útskýri fyrir fólki af hverju í miðju góðærinu þurfi að leggja gjöldin á þá sem minna mega sín. Ég held að nauðsynlegt sé að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, sem þó hefur sýnt þann manndóm að koma í þingsal og láta sjá sig, komi nú upp og útskýri þessa viðhorfsbreytingu frá því fyrir tveimur árum. Ég held að nauðsynlegt sé fyrir þingið að fá upplýsingar um hvað hefur breyst á þessum tveimur árum. Ekki hefur hagvöxturinn breyst. Hann hefur aukist svo menn berja sér á brjóst hvar sem þeir koma. En þá er þetta rétta leiðin að ganga á það fólk sem ekki getur greitt gjöldin sín.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð lengri og vænti þess að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir komi hér upp og útskýri þessa viðhorfsbreytingu.