Aukatekjur ríkissjóðs

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 22:05:10 (2727)

1997-12-18 22:05:10# 122. lþ. 48.15 fundur 304. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (dómsmálagjöld o.fl.) frv. 143/1997, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[22:05]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er ekki langt síðan þetta mál var til 1. umr. um frv. til laga um breytingar á lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Þá gerði ég athugasemd við nokkur ákvæði frv. sem lúta að dómsmálagjöldum. Ég færði rök fyrir því hve óréttlát skattlagning þetta er vegna þess að verið er að skattleggja neyð heimilanna í landinu, skattleggja þá sem eru í verulegum skuldum sem þeir sjá ekki fram úr og eru kannski komnir það langt að íbúðir þeirra eru að fara á nauðungarsölu. Þarna finnur ríkisstjórnin greinilega matarholu. Það er nú ekki eins og hún sé að finna upp þessa gjaldtöku vegna þess að ríkissjóður hafi svo gríðarlegar fjárhæðir af þeim sem eru í miklum skuldum og fór ég yfir það við 1. umr. þessa máls. Reyndar er það svo að ég, ásamt nokkrum þingmönnum, hef flutt þingsályktun þing eftir þing um aðgerðir til að bæta stöðu skuldara, og þar höfum við einmitt dregið fram þessa miklu skattlagningu hjá ríkisvaldinu á þá sem eru í miklum vanskilum og eru u.þ.b. að fara með sínar íbúðir á nauðungarsölu. Hér er um að ræða gjaldtöku sem ríkissjóður hefur og tek ég líka með þinglýsingagjöld sem skiptir nokkrum milljörðum. Við erum þá náttúrlega að tala um húsbyggjendur og íbúðarkaupendur. En ríkisstjórninni þykir greinilega ekki nóg að gert og hækkar þessi gjöld. Þarna er sennilega um að ræða 70 millj. sem ríkissjóður ætlar að hafa til viðbótar af þeim sem eru í miklum erfiðleikum. Mér finnst það satt að segja ekki stórmannlegt, herra forseti. Það sem vakti vonir mínar við 1. umr. málsins þegar ég ræddi þetta mál var að ég beindi þeirri spurningu til hæstv. fjmrh. hvort hann teldi það ekki óréttlátt að ráðast að skuldugum heimilum á þennan hátt, og fór yfir dómstólagjöldin, sérstaklega aðfarargjöldin og gjald fyrir beiðni um nauðungarsölu. Mér fannst, herra forseti, skilnings gæta í máli hæstv. ráðherra þegar ég spurði hann hvort hann teldi ekki eðlilegt og rétt að nefndin skoðaði þetta mál og hvort hann gæti ekki fallist á að leitað yrði samkomulags um að fella verstu þættina út úr dómsmálagjöldunum sem snúa sérstaklega að skuldugum heimilum. Hæstv. ráðherra tók þessu vel og ég hafði því satt að segja gert mér vonir um að hv. efh.- og viðskn. mundi leggja til við 2. umr. málsins, að þeir póstar féllu út úr dómsmálagjöldunum og að heimilunum yrði hlíft við þeim sérstaka jólaglaðningi sem ríkisstjórnin ætlar að senda rétt fyrir jólin, þeim fjölskyldum sem eru í mikilli neyð og komnar með heimili sín kannski á uppboð.

Herra forseti. Það er alveg ljóst að þessi von hefur orðið að engu og minni hlutinn hefur reynt --- ég sé það í áliti minni hlutans að hann hefur reynt að koma vitinu fyrir meiri hlutann og reynt að fá þá til að fella út þá pósta sem snúa svona harkalega að heimilunum í landinu. En ég sé að það hefur greinilega ekki tekist. Ég spyr hæstv. ráðherra um það, af því hann gaf nú vissulega vonir við 1. umr. málsins um að hægt yrði að leita samkomulags um að fella út þá pósta sem snúa að hækkun á gjaldi fyrir beiðni um nauðungarsölu og aðfarargjöldin. Ég nefndi að vísu þinglýsingarnar líka. Hæstv. ráðherra hafði góð orð um að það mætti vissulega skoða. Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra hafi þá verið í jólaskapi og verið að lofa einhverju upp í ermina á sér og hafi breytt um skoðun vegna þess að þetta er óréttlátt, herra forseti, að skattleggja illa stödd heimili með þessum hætti.

Ég minnti hæstv. ráðherra líka á það við 1. umr. málsins að aðgerðirnar sem ríkisstjórnin hefur gripið til til að bæta stöðu skuldugra heimila hafa litlu skilað. Meðal annars það frv. sem hæstv. fjmrh. fékk samþykkt á síðasta þingi, um niðurfellingu á tekju- og eignarskatti þar sem um það var að ræða að ,,telji innheimtumaður að hagsmunum ríkissjóðs verði betur borgið með nauðasamningi gjaldanda við skuldheimtumenn skuli hann gefa fjármálaráðherra skýrslu um málavöxtu. Fjármálaráðherra er síðan heimilt að samþykkja nauðasamning að fenginni umsögn Ríkisendurskoðunar.`` Það hefur enginn getað nýtt sér þetta ákvæði. Það er því af ýmsu að taka í því efni. En það eru sinnaskipti ráðherrans sem mér eru hugleikin við 2. umr. um þetta mál og hvort ekki sé einhver von milli 2. og 3. umr. ef nefndin tekur málið aftur til sín að ráðherranum snúist hugur og hann sé til samkomulags um þá pósta sem þarna á að fara að hækka á skuldugum heimilum.

Herra forseti. Ég lýsi vonbrigðum mínum með það ef málið á að fara í gegn með þessum hætti. Ég tel þetta satt best að segja mjög snúðugt fyrir heimilin í landinu og erfitt að þurfa að sætta sig við að ráðist skuli vera á þennan hátt á heimili sem eru illa stödd og raunverulega í neyð. Það kann að virðast að þetta séu ekki miklir peningar en þeir eru náttúrlega miklir fyrir þá sem eru kannski komnir með íbúðir sínar á uppboð eða í nauðungarsölu. Mér finnst þetta póstar sem hæstv. ráðherra ætti að skoða með jákvæðum huga að hægt væri að leita samkomulags við hann milli 2. og 3. umr. um að fella þessa pósta út.