Aukatekjur ríkissjóðs

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 22:15:34 (2730)

1997-12-18 22:15:34# 122. lþ. 48.15 fundur 304. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (dómsmálagjöld o.fl.) frv. 143/1997, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[22:15]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er að sjálfsögðu afar þægilegt fyrir hv. þm. að koma nú þegar þingmaðurinn er í stjórnarandstöðu og mótmæla þessum gjöldum. Það hefði nú kannski skipt meira máli að þingmaðurinn hefði mótmælt þeim kröftuglegar þegar hv. þm. sat í þeirri ríkisstjórn sem hækkaði þessi gjöld upphaflega, ekki með lagasetningu heldur með því að setja þau á með reglugerð eða hækka þau hressilega með reglugerð.

Ég hef auglýst og auglýsi enn eftir þeim rökum sem lágu að baki upphaflegri hækkun gjaldanna sem hv. þm. hlýtur að þekkja vegna þess að þingmaðurinn sat í ríkisstjórn þegar gjöldin voru hækkuð en ég bara hef því miður ekki heyrt þessi rök enn þá og ég vildi gjarnan bara fá þau.