Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 10:03:43 (2735)

1997-12-19 10:03:43# 122. lþ. 49.10 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv. 130/1997, KÁ
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[10:03]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Nú líður að lokum þings og hér er komið á dagskrá eitt af þeim málum sem oft marka lokaþátt í störfum þingsins fyrir jól, þ.e. svokallaðar ráðstafanir í ríkisfjármálum. Eins og fram kom við 1. umr. um þetta mál hafa þær ráðstafanir oft verið umfangsmeiri og hrikalegri en hér getur að líta en þó er ýmislegt sem þarf að gera athugasemdir við og ekki síst eftir að málið hefur verið skoðað.

Ég fagna því að meiri hlutinn hefur fallið frá þeim niðurskurði sem boðaður var á átaksverkefnum um framleiðslu og markaðssetningu vistvænna og lífrænna afurða. Ég verð að óska hv. þm. Gísla Einarssyni til hamingju með frækilegan sigur því hann barðist hér eins og ljón við 1. umr. þessa máls og raunar hvenær sem hann hefur haft tækifæri til. Hann fer með fullan sigur í málinu enda verður að segjast eins og er, hæstv. forseti, að ekki var ráðist á garðinn þar sem hann var hæstur í þessari niðurskurðartillögu. Ég verð að lýsa furðu minni á því að mönnum skyldi yfirleitt detta þetta í hug, ekki síst þar sem þarna var um að ræða eitt af því sem átti að gera til þess að minnast 50 ára afmælis lýðveldisins. En frá þessu hefur verið fallið sem betur fer.

Hér ætla ég fyrst og fremst að ræða þau mál sem snúa að hv. félmn. Reyndar fór hv. þm. talsmaður minni hlutans í efh.- og viðskn., hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, nokkuð rækilega yfir þau en þó eru einstaka atriði sem mér finnst nauðsynlegt að komi fram.

Það hefur verið rakið hvernig farið hefur verið með erfðafjárskattinn sem skal samkvæmt lögum renna í Framkvæmdasjóð fatlaðra en nú í annað sinn er lagt til að það fé sé skorið niður og framkvæmdasjóður fái ekki nema hluta þessa fjármagns en hitt renni í ríkissjóð. Í yfirferð vegna væntanlegra tekna ríkisins á næsta ári hefur komið í ljós að góðærið skilar sér æ betur í ríkiskassann þannig að þessi niðurskurðar- og skerðingaráform eru ekki eins nauðsynleg og áður. Góðærið gefur auðvitað kost á því að skoða forgangsröðina og taka á brýnum málum. Eitt af þeim málum er málefni fatlaðra og þeir löngu biðlistar eftir sambýlum sem finna má einkum hér í Reykjavík og á Reykjanesi. Þar hefur verið mörkuð sú stefna að byggja sambýli fyrir fatlað fólk en sú uppbygging gengur allt of hægt, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu. Því harma ég, hæstv. forseti, að ekki skuli vera staðið við það þegar menn hafa eyrnamerkt tekjustofn og skilgeint að fjármagnið skuli renna til þessa málaflokks. Það er slæmt að ekki skuli vera staðið við það og uppbyggingunni haldið áfram.

Ég nefndi það í ræðu við 1. umr. að þrjú ný sambýli verða tekin í notkun á næsta ári en þetta er auðvitað hvergi nærri nóg. Það hefur hægt á þessari uppbyggingu. Það hefur hægt á því að losa fólk af Kópavogshælinu og koma því í sambýli eins og stefnt hefur verið að. Ég hefði viljað ræða þetta mál við hæstv. félmrh. en hann er ekki hér þannig að við getum farið ofan í þau mál síðar. Brýnt er að fara mjög rækilega yfir þessa stöðu og það munum við gera í hv. félmn. Þarna er mikil þörf og þarf auðvitað að marka stefnu. Menn þurfa að átta sig á því hvar þörfin er mest. Þá rifjast það upp, hæstv. forseti, nokkuð sem vakti athygli okkar í hv. félmn. þegar við vorum að fara yfir þá safnliði sem vísað var til okkar, hversu mörg þau samtök eru og hve margir aðilar eru að sinna málefnum fatlaðra. Öll þessi félög, styrktarfélög og félög sem hafa tekið að sér rekstur ýmiss konar og stuðningsfélög hafa auðvitað orðið til af brýnni þörf. Ég held að það hljóti að vera nauðsynlegt að endurskipuleggja þennan málaflokk, bæði hvað varðar ríkisvaldið og samtök fatlaðra og kanna hvort ekki er hægt að vinna betur saman og nýta fjármagnið betur. Margir þessara aðila hafa tekið að sér rekstur fyrir hönd ríkisvaldsins. Ýmist hafa verið gerðir þjónustusamningar eða þessum aðilum verið falinn rekstur stofnana. Þar má m.a. nefna Styrktarfélag vangefinna sem annast rekstur fjölda stofnana, Sjálfsbjörg og fleiri aðila. Þetta eru félög af ýmsu tagi en eftir þessa yfirferð vöknuðu hjá mér spurningar um hvort ekki væri hægt að vinna betur saman og nýta fjármagnið betur í þágu fatlaðra.

Hæstv. forseti. Sú stefna sem hefur verið rekin ár eftir ár er gagnrýni verð, í fyrsta lagi að taka hluta erfðafjárskattsins inn í ríkissjóð og hins vegar að verja hluta af því sem rennur til Framkvæmdasjóðs fatlaðra í rekstur. Þetta var aldrei ætlunin. Ef menn vilja breyta þessu þá þarf að ræða þessi mál vel og rækilega og breyta lögunum.

Varðandi atvinnuleysistryggingarnar, það sem snýr að Atvinnuleysistryggingasjóði, Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga og síðan lögunum um vinnumarkaðsaðgerðir þá hangir þetta allt saman. Hér er einfaldlega verið að velta hluta af kostnaðinum við rekstur vinnumiðlana og Vinnumálastofnunar félmrn. yfir á þessa sjóði. Í stað þess að standa við það sem kveðið er á um í lögunum að kostnaðurinn skuli greiddur úr ríkissjóði, þá er þessu velt yfir á Atvinnuleysistryggingasjóð og Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga og fer auðvitað yfir á atvinnulífið. Það er atvinnulífið, þeir sem borga tryggingagjald sem standa undir helmingnum af þessum rekstri.

Nú verður það að viðurkennast, hæstv. forseti, að okkur í félmn. láðist að kalla á fulltrúa atvinnulífsins til að athuga hvað þeir hefðu að segja um breytinguna. Því miður var ekki heldur kallað á þá í hv. efh.- og viðskn. en mér hefði þótt afar fróðlegt að vita hvað t.d. Verslunarráðið og Vinnuveitendasambandið hefur um þetta að segja. Ef menn eru sammála um að það sé hlutverk og jafnvel eðlilegt að fulltrúar atvinnulífsins taki þátt í þessum rekstri þá er svo sem ekkert um það að segja. En auðvitað á að ræða málin áður en lög eru sett. Þetta var eitt af því síðasta sem við gerðum sl. vor að setja lög um vinnumarkaðsaðgerðir og Atvinnuleysistryggingasjóð. Nokkrum mánuðum síðar breyta menn þessu og velta 100 millj. yfir á Atvinnuleysistryggingasjóð. Þetta eru afar sérkennileg vinnubrögð og en þau segja okkur að auðvitað var ekki búið að hugsa hvernig fjármagna ætti starfsemina þó að í lögunum stæði að peningarnir ættu að koma úr ríkissjóði. En látum nú vera með Atvinnuleysistryggingasjóð. Hann er auðvitað gríðarlega öflugur sjóður þó að mikið hafi á honum mætt á undanförnum árum en það furðulegasta í þessu frv. er ákvæðið um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga. Í athugun félmn. á þessu máli kom fram að Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga væri ekki á nokkurn hátt fær um að leggja sitt af mörkum. Ég bendi sérstaklega á þetta þar sem það virðist hreinlega hafa fallið úr bréfi okkar til hv. efh.- og viðskn. Álit þeirra fulltrúa sem komu frá félmrn. var að sjóðurinn gæti lagt afar lítið af mörkum. Þar með er alveg ljóst að þessar 100 millj. munu falla nánast algerlega á Atvinnuleysistryggingasjóð. Ég lýsi enn og aftur furðu minni á þessu ákvæði. Það þurfti að setja marga varnagla í lögin um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga vegna þess að menn óttast mest að hann geti ekki staðið undir sínum skuldbindingum og stutt þá einstaklinga sem borgað hafa tryggingagjald og verða atvinnulausir, ef þeir á annað borð verða skilgreindir sem atvinnulausir. Þetta er mál sem þarf að skoða hér að nýju og ég ítreka þá skoðun mína að menn eigi að draga þarna ákveðin mörk. Ýmsir þeir hópar sem augljóslega geta ekki nýtt sér þau réttindi sem tryggingasjóðurinn gefur ættu að sleppa við að greiða tryggingagjald eins og gert hefur verið m.a. á Norðurlöndunum.

[10:15]

Ég vildi láta það koma sérstaklega fram að við yfirferð okkar varð okkur ljóst að Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga er ekki á nokkurn hátt fær um að leggja sitt af mörkum til starfsemi vinnumiðlana. Eða a.m.k afar lítið. Auðvitað hefði verið ástæða til þess, hæstv. forseti, að skoða aðgerðirnar í tengslum við breytingar á tryggingagjaldinu því að þær ráðstafanir sem felast í þessu frv. snúa ekki síst að tryggingagjaldinu. Samkvæmt 12. gr. er verið að lækka framlögin til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Þar með lækkar tryggingagjaldið, þ.e. sá hluti sem rennur til Atvinnuleysistryggingasjóðs um leið og sífellt er verið að fjölga verkefnum sjóðsins. Á þessu er vert að vekja sérstaka athygli. Framlög til sjóðsins lækka um 400 millj. en jafnframt verða lagðar allt að 100 millj. á sjóðinn til að standa undir kostnaði við rekstur vinnumiðlana og vinnumarkaðsaðgerðirnar. Hann verður látinn standa undir kostnaðinum við Vinnumálastofnun og hefði verið fróðlegt að heyra hvað þeir sem greiða þetta gjald hafa um það mál að segja.

Hæstv. forseti. Aðrir munu koma inn á ákvæði sem hér er að finna um almannatryggingar en ég vil vekja athygli á því að m.a. Sjálfsbjörg hefur sent okkur þingmönnum bréf þar sem ákvæði 9. gr. er mótmælt. Þeir benda á að sú breyting sem hér er verið að gera, að tengja kjör lífeyrisþega við vísitölu neysluverðs í stað launavísitölu, geti falið í sér ákveðna gildru sem verði til þess að breikka bilið milli bótaþega og launþega á vinnumarkaði. Ég hlýt að taka undir þær efasemdir sem fram hafa komið gagnvart umræddri grein. Krafan um að lífeyrir fylgi almennri launaþróun í landinu er sjálfsögð. Við eigum að sjá til þess að kjör fólks á bótum sem gjarnan á erfiðast versni ekki frá því sem orðið er heldur fylgi þau hinni almennu launaþróun.

Hæstv. forseti. Ég sé ekki ástæðu til að ræða frekar um aðrar greinar frv. Ég fór nokkuð ítarlega í sumar þeirra við 1. umr. eins og þjóðarbókhlöðuskattinn. Þar er auðvitað sama sagan, verið að klípa af ákveðnum tekjustofni án sjáanlegrar ástæðu á sama tíma og tekjur ríkissjóðs aukast statt og stöðugt, langt umfram það sem áætlað var. Ég vil benda á það að viðhald menningarbygginga skapar mikla vinnu. Það skilar sér auðvitað til ríkisins í sköttum. Eitt af því besta sem hægt er að gera er einmitt að viðhalda vinnu og uppbyggingu með þeim hætti að bæta viðhald menningarbygginga enda vantar ekki verkefnin. Mörg hver hafa verið látin bíða allt of lengi og þarf að taka þar verulega á en í raun og veru finnst mér skipta mestu máli að láta tekjustofnana renna til þeirra verka sem ætlunin var bæði hvað varðar þjóðarbókhlöðuskattinn og erfðafjárskattinn. Menn hafa ákveðið tekjustofna sem skulu renna til ákveðinna verkefna. Síðan fara menn að krukka í þetta og klípa af, svona helminginn. Hreinna væri að breyta lögunum og skilgreina frekar verkefnin. Hægt væri að hætta eyrnamerkingum en skilgreina verkefnin þannig að ljóst sé hvað verið sé að gera og ákveðnum fjármunum sé varið á fjárlögum til verkefnanna í stað þess að setja lög og afnema þau síðan ár eftir ár.