Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 10:21:08 (2736)

1997-12-19 10:21:08# 122. lþ. 49.10 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv. 130/1997, RG
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[10:21]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þegar við ræðum ráðstafanir í ríkisfjármálum þá erum við annars vegar að fjalla um hluta fjárlagagerðar, lagabreytingar sem þeim fylgja en fyrst og fremst birtist okkur stefna ríkisstjórnarinnar. Þess vegna er umræða um ráðstafanir í ríkisfjármálum pólitísk umræða. Við fjárlagagerð þessarar ríkisstjórnar ætti stefna ríkisstjórnarinnar að birtist okkur en það sem birtist okkur er stefnuleysið.

Vissulega reyndi á stjórnvöld á þeim samdráttartímum er draga þurfti saman seglin á flestum sviðum. Þess vegna eru vonbrigðin líka meiri þegar við blasir hve ríkisstjórnin er skeytingarlaus varðandi ýmis þýðingarmikil mál. Þegar við skoðum bandorminn svokallaða, frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum, þá birtist okkur viðhengi aðgerðalítilla fjárlaga aðgerðalítillar ríkisstjórnar.

Fyrir síðustu kosningar hafði forustuflokkur ríkisstjórnar aðeins einn boðskap: Hann ætlaði að vera áfram í ríkisstjórn. Öðru gegnir um samstarfsflokkinn. Þar stóð ekki á yfirlýsingum og kosningaloforðum. Ætla mátti að kæmist Framsfl. til valda mundi það valda straumhvörfum í íslenskri pólitík en raunin varð önnur. Einu átakamál þessarar ríkisstjórnar hafa snúið að takmörkun á rétti einstaklingsins. Hægt væri að nefna mörg dæmi því til staðfestingar. Á þessu kjörtímabili örlar ekki á að litið sé til framtíðar né að áform sem byggja á hugmyndafræði um að tryggja lífskjör allra séu kynnt. Lítið er lagt upp úr endurmenntun fólks til nýrra starfa til að mæta breytingum í þjóðfélaginu á komandi öld til að stuðla að því að vera samkeppnishæft um unga fólkið sem nú er á menntabraut. Þess bíður alþjóðlegur vinnumarkaður eins og við höfum séð að undanförnu varðandi unglækna á sjúkrahúsum og aðra þá sem eru að gefast upp á aðstöðuleysinu hér á Íslandi og skilningsleysi þeirra sem ráða ríkjum.

Það er engin sýn hjá þessari ríkisstjórn. Hún ríður hins vegar á bylgju hagvaxtar sem fyrst og fremst hefur orðið til vegna breytinga og ytri skilyrða. Hún slær sér á brjóst og segir: Þetta gerum við!

Virðulegi forseti. Þegar ég nefni ríkisstjórnina, vegna þess að við erum hér að ræða ráðstafanir í ríkisfjármálum, þá hlýt ég að kalla eftir því hvort forseti hefur gert ráðstafanir til þess að svo sem einn ráðherra komi sér á fætur og mæti hér í sal til að hlýða á mál þingmanna. A.m.k. væri þá hægt að láta líta út fyrir að ríkisstjórninni væri ekki sama um þær athugasemdir sem við þingmennirnir í þessum sal kunnum að koma með um frv. Fjarvera ráðherranna undirstrikar skeytingarleysi, áhugaleysi og virðingarleysi við þá sem eru hér störfum hlaðnir frá morgni til kvölds. Við þá sem eru störfum hlaðnir við að ljúka mikilvægum málum ríkisstjórnarinnar í nefndum þingsins, hlaupa á aukafundi og sitja fram á nætur við að fylgja úr hlaði nefndarálitum og öðru. Því spyr ég forseta: Hvað líður?

(Forseti (ÓE): Forseti hefur gert ráðstafanir til þess að kalla á hæstv. félmrh.)

Það er ánægjulegt að hæstv. félmrh. verði viðstaddur upphaf þessarar umræðu þar sem svo vill til að fyrstu ræðumenn í umræðu dagsins eru úr félmn. Þeir munu e.t.v. leggja höfuðáherslu á það sem snýr að félmn. En ég vek athygli á því að frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum er frv. forsrh. og hér á forsrh. að vera viðstaddur umræðuna, ekki í húsinu fyrir framan sjónvarp heldur í þessum sal og vera tilbúinn til að svara spurningum sem hér kunna að vakna. Hann ætti að sýna þá virðingu að vera hér viðstaddur umræðu um sitt eigið frv. í stærsta máli ríkisstjórnar á hverju ári sem eru fjárlög og ríkisfjármál. Þess vegna óska ég eftir því, virðulegi forseti, að það sé kallað eftir því að forsrh. mæti hér til leiks og hlýði á umræðu sem hér fer fram.

(Forseti (ÓE): Þegar eru þrír hæstv. ráðherrar komnir í þinghúsið.)

(SJS: Og eru flestir vaknaðir?)

(Forseti (ÓE): Forseti veit það ekki.)

Ég þakka forseta fyrir skjót viðbrögð við ósk minni eftir að hann kallaði eftir því að ráðherrar í ríkisstjórn hans mættu hér til sjálfsagðra skyldustarfa. Nú er hæstv. félmrh. genginn í salinn. Þetta segir okkur mikið um ásýnd ríkisstjórnarinnar og vinnubrögð hennar.

Ég var að tala um pólitík, hvað ætti að birtast okkur í stefnu ríkisstjórnarinnar og hvernig stefnuleysið birtist. Fjarvera flutningsmanns frv. undirstrikar samskipti hans við ráðherrana því að að sjálfsögðu eru þau samskipti engu betri við þingmenn hér. Að sjálfsögðu erum við þingmenn stjórnarandstöðu sá hópur sem fyllir salinn í morgunsárið og ekki við að búast að okkur sé sýnd meiri virðing en samráðherrum eða samþingmönnum.

Virðulegi forseti. Annað slagið ber við að einhverjum ráðherranna verður á í messunni og lætur uppi hvað ríkisstjórnin ætli að gera eða hafi tekið ákvarðanir um að gera. Hann segir það e.t.v. á vitlausum tíma eða vitlausum stað. Hann sér ekki fyrir hver viðbrögð þings og þjóðar verða eða telur jafnvel eðlilegt að ákvarðanir ríkisstjórnar verði að mæta þeim viðbrögðum og takast á við þau. Hann hefur e.t.v. gleymt að tilkynna forsrh. hvað ákvörðun hans felur í sér. Við sjáum alla vega forsrh. sem kemur eins og líknandi hönd og sem breiðir sig yfir viðkomandi mál eða málaflokk. Hann breytir fyrri ákvörðunum að því er virðist einn og sjálfur. Hann rassskellir samráðherra sína fyrir framan alþjóð og svo rammt kveður að þessum opinberu leiksýningum að nú er það altalað í bænum að síðasta uppákoman hafi verið sett á svið gagngert til að vekja vinsældir og athygli á ríkisstjórninni. Það sem birtist okkur er ekki stefna heldur leiksýningar og aðgerðir af því tagi. Síðasta uppákoman var sú að hæstv. fjmrh. talaði af sér í þingsal og upplýsti um fyrirhugaðar skattahækkanir eða réttara sagt, að fallið yrði frá fyrirhuguðum skattalækkunum. Í þingsal verða hörð viðbrögð, í þjóðfélaginu verða hörð viðbrögð og hjá verkalýðshreyfingunni sem var búin að semja út frá þessum forsendum en hæstv. forsrh. kemur, kippir í liðinn og segir enn einu sinni: Svona gerum við ekki.

Sýningin er svo rosalega flott og svo rosalega vel leikin að ekki væri ósennilegt að ef gengið yrði um meðal almennings og spurt: Hver er stefna þessarar ríkisstjórnar? Þá mundi fólkið horfa upp á viðkomandi og segja: Davíð. Davíð.

[10:30]

Virðulegi forseti. Ég ætla að snúa mér að frv. sjálfu um ráðstafanir í ríkisfjármálum og þeim þáttum sem snúa að félmn. sem ég á sæti í. Þeir liðir sem komu til umfjöllunar nefndarinnar lúta að ráðstöfun erfðafjárskattsins og málefnum fatlaðra, þ.e. Framkvæmdasjóði fatlaðra sem erfðafjárskatturinn á að renna óskiptur í samkvæmt lögum. Við höfum upplifað það í tíð þessarar ríkisstjórnar að eingöngu um það bil þriðjungurinn af innheimtufé erfðafjárskatts rennur í framkvæmdasjóðinn. Aðrir þættir sem við fjölluðum um í félmn. eru breytingar á Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga og breytingar á lögum um vinnumarkaðsaðgerðir og atvinnuleysistryggingar, og mun ég koma að því.

Félmn. hefur gert athugasemdir við það að Atvinnuleysistryggingasjóður greiði hluta af rekstrarkostnaði svæðisvinnumiðlana og Vinnumálastofnunar þvert á gildandi lög. Viðbótarkostnaðurinn nemur um það bil 100 millj. kr. og samkvæmt lögum á allur rekstrarkostnaður svæðisvinnumiðlana og Vinnumálastofnunar að koma úr ríkissjóði og vekur minni hlutinn í félmn. athygli á því að það ætti að halda sig við það fyrirkomulag. Bæði hafa tekjur Atvinnuleysistryggingasjóðs hafa dregist saman en auk þess hafa sjóðnum verið falin aukin verkefni á borð við atvinnusjóð kvenna og starfsmenntasjóð. Við erum mjög ósátt við að þessi verkefni hafi verið flutt undir Atvinnuleysistryggingasjóðinn og finnst það að honum eru fengin þessi auknu verkefni geri hann síður undir það búinn að mæta áföllum. Auk þess sé það röng hugsun að setja uppbyggingarverkefni á borð við atvinnusjóð kvenna og starfsmenntasjóð undir Atvinnuleysistryggingasjóðinn miðað við þá ímynd sem það gefur.

Við höfum gagnrýnt harðlega, virðulegi forseti, að atvinnusjóður kvenna var settur undir Atvinnuleysistryggingasjóð, bæði í fyrra og eins í umræðum á milli fjárlaga. Það er ekki há upphæð sem atvinnusjóðurinn hefur til umráða. Upphæðin er óbreytt, um það bil 20 millj. kr. og það hefur verið talað um það að umsóknum í sjóðinn hafi fækkað en á sama tíma hefur engin tilraun verið gerð til að skoða hvað þarf að koma til og hverju þarf að breyta til að þessi sjóður verði jafnvirkur og hugsað var í upphafi. Við vitum að framlög úr sjóðnum hafa verið mjög lág. Þau hafa yfirleitt verið innan við 200 þús. kr. til hvers einstaklings sem hefur sótt í hann. Þetta hefur fyrst og fremst verið til að koma af stað smáum sjálfstæðum verkefnum sem oft hafa verið rekin í tengslum við heimilið eða þar sem konur hafa slegið sér saman kannski fimm eða sex í hóp og byrjað með atvinnusköpun sem oft er einhvers konar handiðn. Þessi sjóður á auðvitað að vera hluti af öðru sem lýtur að því sama og á að vera stuðningur við það að konur fari í skapandi verkefni og sjálfstæðan atvinnurekstur. Það er oft búið að minna á hvernig það er víða í Evrópu og Bandaríkjunum þar sem sérstakar lánastofnanir hafa beitt sér og verið meðvirkar við stofnun nýrra fyrirtækja og þar sem ný fyrirtæki kvenna hafa átt þátt í auknum hagvexti.

Ég minni á það, virðulegi forseti, að í tíð Alþfl. í félmrn. og tíð Alþfl. í iðn.- og viðskrn. var gerður samningur af hálfu ráðherra í þessum tveimur ráðuneytum og borgarstjórans í Reykjavík um ábyrgðatryggingarsjóð kvenna þar sem leitað var eftir stuðningi lánastofnana við að búa til þennan atvinnutryggingasjóð sem stæði undir tryggingum þegar konur væru að leita eftir fjárhæðum til að stofna fyrirtæki, lágum fjárhæðum, þar sem þær skirrast við að leggja heimilin undir. Reyndar var þessi ábyrgðartryggingarsjóður endurstofnaður fyrr á þessu ári ef ég man rétt eftir að lánastofnanirnar höfðu ákveðið að taka þátt í þessu og er enn eitt dæmi þess að góð verkefni sem félmrh. hefur kynnt í fjölmiðlum hafa átt upphaf sitt hjá Alþfl.

Virðulegi forseti. Alls staðar í kringum okkur er verið að auka framlög til starfsmenntunar og hvers kyns endurmenntunar og fullorðinsfræðslu, ekki síst vegna þeirra miklu breytinga sem fram undan eru í atvinnulífinu í öllum löndum í hinum vestræna heimi og er full ástæða til að minna á það sem kom fram í kosningabaráttunni í Bretlandi að forsrh. Bretlands lagði ríka áherslu á að komandi kynslóð yrði að búa sig undir að þurfa e.t.v. þrisvar sinnum á sinni starfsævi að gjörbreyta þeim verkefnum sem hún mundi snúa sér að vegna gífurlegra breytinga á vinnumarkaði. Enginn gæti búist víð því að mennta sig undir ákveðið starf og geta sinnt því starfi ævilangt. Þetta er munurinn á því sem er fram undan og því sem hefur verið t.d. hjá minni kynslóð.

Hvar er framtíðarsýn þessarar ríkisstjórnar varðandi þær breytingar sem blasa við sem öllum eru kunnugar og allir eiga að hafa skilning á? Framtíðarsýnin er engin. Vilji ríkisstjórnarinnar til að byggja upp á þessum vettvangi er ekki sýnilegur. Starfsmenntasjóðurinn er færður undir atvinnuleysistryggingar í kjölfar þess að formaður þeirrar nefndar sem vann skýrslu og síðar frv. um breytingar á Atvinnuleysistryggingasjóði lýsti því ítrekað yfir að ríkissjóður ætti ekki að kosta námskeið eða einhverja slíka hliðarmenntun. Það ætti bara að kosta námskeiðahald fyrir þá sem væru atvinnulausir. Annað ætti að fara fram í skólum landsins og fólk ætti að sjá um sig sjálft að öðru leyti. Það er nákvæmlega þetta sem birtist okkur í boðskap ríkisstjórnarinnar eða stefnuleysi. Það skortir fullkomlega heildarhugsun í málum fullorðinsfræðslu.

Á tyllidögum er sagt að þekking sé fjárfesting, að við byggjum upp fyrir framtíðina með því að mennta þjóðina. Þessu er ekki fylgt eftir í framkvæmd og hugsunin í menntamálum er röng. Framhaldsskólinn t.d. og háskólinn enn þá sem betur fer er kostaður af ríkinu. Fullorðinsfræðsla er ekki greidd af ríki. Fullorðinsfræðsla er á kostnað fullorðinna. Í þessum sal fjöllum við oft um frv. og löggjöf, síðast um háskólann og í þessum sal erum við næstum alltaf að fjalla um menntun menntaðra. En hópurinn sem mundi sækja í starfsmenntasjóð, verkafólkið og aðrir með minnsta menntun eiga að vera í vinnunni. Þeir þurfa leyfi til þess að fara á námskeið og oft er mjög erfitt fyrir þetta fólk að bæta við sig þekkingu og menntun. Mælikvarði á fólkið í láglaunastörfunum er að það sé nógu lengi á vinnustað, að það sinni vinnunni sinni vel. Mælikvarðinn á þetta fólk er vinnudýrið. Þetta er fólk með lægstu tekjur og þetta er fólk sem á verst með að missa tekjur til að afla sér viðbótarmenntunar. Það er líka fjarlægast fyrirtækjunum að leggja fram fjármagn til þess að mennta þetta fólk. Fyrirtækin leggja fram fjármagn til menntunar ef það gefur í aðra hönd fyrir fyrirtækið sem slíkt. Þess vegna á ríkið að sjá um að vinnuaflið verði hreyfanlegt og frjálst og ekki bundið fyrirtækjunum. Auðvitað eiga fyrirtæki að leggja fram í sjóði en ríkið á að tryggja að úr þeim sjóðum sé greitt til starfsmenntunar, starfsþjálfunar og uppbyggingar alls fólks á vinnumarkaði.

Það tók áratugi að festa sumarleyfi í sessi fyrir vinnandi fólk. Nú þarf að festa námsleyfi í sessi því að þá myndast bæði nýr fræðsluþáttur og margir munu tengjast því hlutverki og það er alveg ljóst að þær þjóðir munu spjara sig sem hafa bestu menntun, ekki bara menntun sumra eða hluta þjóðarinnar, heldur þær sem hafa menntað alla þjóðina á öllum sviðum. Sú þjóð verður sterk. Þess vegna þurfum við að tryggja sterkan starfsmenntasjóð sem gerir þetta mögulegt. Sú sýn er ekki hjá þessari ríkisstjórn. Hún er með sömu gömlu fjárhæðina í starfsmenntasjóð og verið hefur og hefur sett hana undir Atvinnuleysistryggingasjóð með þeirri ímynd sem í því felst.

Virðulegi forseti. Annað mikilvægt mál sem ég ætla að drepa á er Framkvæmdasjóður fatlaðra. Síðustu tvö árin hefur ríkt kyrrstaða í málefnum fatlaðra. Þjónustuúrræðum hefur lítið sem ekkert fjölgað. Allt tal um góðærið í landinu hefur verið hjóm eitt í eyrum þeirra sem bíða eftir nauðsynlegri þjónustu. Á stærstu þjónustusvæðunum er staðan ekki björt. Á Reykjanesi bíða 135 manns eftir viðunandi búsetu- og þjónustuúrræðum. Til að leysa brýna þörf þeirra má ætla að að byggja þurfi allt að 25 sambýli, 3--4 hæfingarstöðvar, 2--3 skammtímavistanir auk þess að auka verður liðveislu og heimaþjónustu. Í Reykjavík er vandinn sagður svipaður, þó ívið meiri og því þarf svipuð úrræði og á Reykjanesi. Þar bíða nú 200 manns eftir búsetuúrræðum og ýmiss konar stoðþjónustu. Á báðum þessum svæðum eru auk þess margir sem þurfa enn meiri þjónustu en þeir fá nú, t.d. vegna aldurs og þeirra fylgikvilla sem óhjákvæmilega fylgja fötlun þegar aldur færist yfir. Það má ætla að fjárþörf þessara tveggja kjördæma sé hátt á þriðja milljarð kr. til viðbótar því fjármagni sem nú rennur til málaflokksins. Þessi svæði eru tekin sem dæmi því þar er vandinn alvarlegastur en mörg óleyst mál eru vissulega einnig á öðrum landsvæðum.

Bundnar voru vonir við að ríkisstjórnin héldi áfram því verki að koma þessum málaflokki í mannsæmandi ástand, að búa í haginn fyrir yfirtöku sveitarfélaganna á þjónustunni með auknu fjárframlagi. Það er nú ljóst að þær vonir hafa orðið að engu. Það virðist aftur á móti vera ríkisstjórninni kappsmál að draga úr fjárframlögum hvað mest hún má. Þannig hefur hún nú annað árið í röð skorið niður lögboðið framlag í Framkvæmdasjóð fatlaðra um rúmlega 200 millj. kr. og fjárframlög til nýrra viðfangsefna í rekstri eru engan veginn í samræmi við brýna þörf.

Ítrekað hefur verið bent á að sérstakan gaum þarf að gefa að réttarstöðu þeirra sem í dag búa á sólarhringsstofnunum, ekki síst þeim stofnunum sem eru skilgreindar sem heilbrigðisstofnanir. Það fólk nýtur ekki sömu grundvallarmannréttinda og aðrir landsmenn. Fjölmörg dæmi eru um réttindabrot og íbúar þessara staða njóta ekki þjónustu almannatryggingakerfis, fá ekki lífeyrisgreiðslu sér til tekna, fá ekki úthlutað hjálpartækjum á við aðra og njóta ekki menntunar og annarra gæða samfélagsins. Þrátt fyrir þá staðreynd að flestar nágrannaþjóðir hafa lagt slík fyrirbæri niður er um þessar mundir lítill pólitískur vilji fyrir því að leggja niður sólarhringsstofnanir hér. Í tíð síðustu ríkisstjórnar var hafist handa við að leggja niður Kópavogshælið sem nú heitir endurhæfingardeild Landspítalans og áætlanir um útskriftir íbúanna þar voru lagðar fram. Fyrsta áfanga í þeirri áætlun um að útskrifa 37 manns þaðan lýkur ekki fyrr en haustið 1998 og hefur þá tekið fjögur ár en átti samkvæmt áætlunum aðeins að taka eitt ár. Síðustu tvö árin hefur því gengið hægt að uppfylla gefin loforð. Engin áform um áframhald á þessu verki né öðrum sambærilegum liggja fyrir og menn hljóta að spyrja hvort sveitarfélögin sætti sig við þá óljósu stöðu sem uppi er um mál íbúa stofnana þegar sveitarfélögum er ætlað að taka yfir málaflokk fatlaðra.

Virðulegi forseti. Ég nefndi að 135 umsækjendur biðu á Reykjanesi. Af þeim eru um 20,7%, eða um fimmtungur, á neyðarlista, um 28 manns. Samkvæmt öðrum upplýsingum sem ég hef eru um 24% í mikilli þjónustuþörf og 18% í mjög mikilli þjónustuþörf. Þetta er mælikvarðinn sem fagfólk leggur á þjónustuþörf þeirra sem bíða. Fleiri og fleiri einstaklingar eru í neyð og brugðið hefur verið á það ráð í mörgum tilvikum sem eftirtekt vekur, til að létta álagi af fjölskyldum sem hreinlega eru búnar að gefast upp sökum heilsufars og gífurlegs álags, að þetta er gert á kostnað annarra sem einnig hafa þörf fyrir skammtímavistun en eru ekki í eins mikilli neyð ef hægt er að skilgreina það þannig. Það er, með öðrum orðum, búið að gera skammtímavistanir sem eiga að vera stofnanir sem létta af heimilum þar sem fatlað fólk býr heima, að heimilum mikið fatlaðra vegna þess að úrræði eru ekki til staðar. Auðvitað eru þetta ekki viðunandi úrræði og á meðan er ekki hægt að nýta skammtímavistanirnar til þess sem þeim er ætlað.

[10:45]

Virðulegi forseti. Ég nefndi Kópavogshælið og áformin þar. Eins og ég hef áður sagt áttu 37 manns að flytja út af Kópavogshæli í fyrsta áfanga og lítið hefur miðað í máli þessa fólks. Félmrh. hefur lýst því yfir að þessum áfanga ljúki í fyrsta lagi 1998. Þrátt fyrir þær yfirlýsingar svarar heilbrrh. því í skriflegu svari sem í síðustu viku var dreift á borð þingmanna, að hún hyggist setja þar á stofn endurhæfingardeild og líknardeild áður en búið er að finna fólkinu sem þarna er varanleg úrræði. Þarna á að skapa um 24 rúm. Það er mjög gott mál og ég styð það að líknardeild og endurhæfingardeild verði sett á laggirnar í Kópavogi. En það verður ekki gert meðan engin úrræði finnast fyrir það fólk sem þar býr í dag og á þessa heilbrigðisstofnun sem heimili sitt og bíður eftir að úrræðinu sem lofað hefur verið verið hrint í framkvæmd.

Virðulegi forseti. Ég hef drepið á þeim þýðingarmiklu málum sem félmn. fékk til umfjöllunar í frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Þetta er dropi í hafið af því sem snýr að stefnuleysi þessarar ríkisstjórnar, en ástæða er til að minna á þetta í ríkum mæli. Og ég vona að þeir þingmenn sem hér eiga eftir að tala berji á því hversu þörfin er mikil í þessum viðkvæmu málaflokkum sem enginn stendur vörð um nema við sem ætlum að skapa nýja tíma þegar hin breiða hreyfing jafnaðarmanna hefur komist til valda með sinn boðskap.