Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 11:44:02 (2740)

1997-12-19 11:44:02# 122. lþ. 49.10 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv. 130/1997, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[11:44]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson gerði að umræðuefni álit minni hluta heilbr.- og trn. um þá kafla bandormsins sem lúta að breytingu á lögum um almannatryggingar. Mig langar þess vegna aðeins að reifa tildrög málsins.

Eins og menn muna eftir og hv. þm. rifjaði upp í ræðu sinni áðan flutti stjórnarandstaðan mjög harða tillögu um það að tengja á nýjan leik bætur almannatrygginga við þróun launa hér á landi. Ríkisstjórnin hafði áður afnumið þá tengingu. Það hafði vakið hörð mótmæli, ekki bara af hálfu stjórnarandstöðunnar heldur mjög hörð mótmæli úti í þjóðfélaginu. Ég tel að hörð andstaða stjórnarandstöðunnar og ekki síst á meðal eldri borgara hafi orðið til þess að mjög mikilvægur sigur vannst í málinu. Forsrh. lét undan síga og hann lýsti því yfir mjög undanbragðalaust að við þessi áramót yrðu sett í gildi lög sem mundu tengja aftur bætur almannatryggingakerfisins og launaþróunar. Það kom mönnum þess vegna mjög á óvart þegar bandormurinn kom fram og það birtist í umræddum greinum hans að yfirlýsing forsrh. var ekki tryggilega fest inn í frv. Af þeim sökum lagði minni hluti heilbr.- og trn. til við efh.- og viðskn. að þetta yrði kirfilega fest inni með því að 65. gr. laga um almannatryggingar orðist svo, með leyfi forseta:

,,Bætur almannatrygginga svo og greiðslur skv. 59. gr. og fjárhæðir skv. 17. gr. skulu breytast í samræmi við launavísitölu Hagstofu Íslands þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.``

Síðan sögðu þau jafnframt að breytingarnar skyldu verða ársfjórðungslega. Það var fyrst og fremst gert til þess að tryggja að 4% hækkunin sem átti að koma fram um áramótin mundi líka speglast inni í bótum almannatryggingakerfisins. Nú skilst mér að yfirlýsing hafi komið fram um að það gerðist. Þess vegna væri í sjálfu sér, herra forseti, hægt að fella brott þessar síðustu línur sem tengjast ársfjórðungshækkununum og láta hitt standa. Ég vil hins vegar taka undir þá skoðun sem hv. þm. lét í ljósi áðan að ekki er á það hættandi að stjórnarandstaðan flytti slíka tillögu ef hún yrði felld. Ég held að við verðum að treysta frekar orðum forsrh. þó vissulega endurspegli þetta einhvers konar óánægju og ágreining innan stjórnarliðsins en orð forsrh. hljóta að standa í þessu efni.