Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 11:54:24 (2745)

1997-12-19 11:54:24# 122. lþ. 49.10 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv. 130/1997, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[11:54]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Þetta hafa verið fróðlegar umræður sem hafa spunnist á lokaspretti umræðnanna um bandorminn og hafa fjallað einkum um þá hluta bandormsins sem varða almannatryggingalögin. Ég tek undir þá skoðun, herra forseti, sem kom fram hjá hv. þm. Svavari Gestssyni, að eins og þetta er orðað í núverandi frumvarpstexta er ljóst að í þeim texta er fólgin trygging fyrir því að kaupmáttur bótanna geti ekki minnkað. Sú staða getur líka komið upp samkvæmt frumvarpstextanum að kaupmáttur bótanna aukist hlutfallslega --- herra forseti, mér þætti vænt um ef hv. formaður efh.- og viðskn. mundi gefa sér tíma til að hlýða á orð mín.

(Forseti (ÓE): Já, hafið hljóð í salnum og hlustið á ræðumann.)

Ég bið hv. þm. Vilhjálm Egilsson afsökunar á því að hafa truflað hann frá öðrum störfum og mikilvægari en þeim að hlusta á ræðu mína um almannatryggingakafla bandormsins. Það sem ég var að segja, herra forseti, svo ég rifji það upp aftur, þá tel ég þessar umræður mikilvægar. Ég tel að þær skýri betur hvert ríkisstjórnin er að fara með þessum kafla. En áður en ég kem að því sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson sagði áðan, þá vil ég segja að ég er sammála þeirri skoðun sem hv. þm. Svavar Gestsson hefur á inntaki 9. gr. Það er alveg ljóst samkvæmt henni, tel ég, eins og hún er orðuð í núverandi frumvarpstexta að þetta þýðir að kaupmáttur bótanna getur ekki minnkað. En þetta þýðir líka að kaupmáttur bótanna getur hækkað hlutfallslega miðað við kaupmátt launa ef svo fer að launavísitalan fer niður.

Að vísu eru ekki líkur á því en samkvæmt texta frv. þýðir þetta ekkert annað ef svo færi að launavísitalan mundi síga niður á við, þá er kaupmáttur bótanna samt sem áður tryggður með því að þarna segir í 9. gr., með leyfi forseta:

,,Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna em verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.``

Menn hafa verið að deila um með hvaða hætti eigi að tryggja að bætur alamannatryggingakerfisins rýrni ekki. Ég held að í því velferðarkerfi sem flokkarnir á Íslandi hafa sameiginlega staðið að að byggja upp, misjafnlega áhugasamir þó, ríki almenn sátt um að reyna eigi að koma í veg fyrir með öllum ráðum að bætur almannatryggingakerfisins lækki miðað við kaupmátt almennings í landinu. Ég þóttist skilja það af máli hv. þm. Vilhjálms Egilssonar að hann er nákvæmlega þeirrar skoðunar. Hann tilheyrir sem sagt þeim geðfellda parti Sjálfstfl. sem vill hjálpa lítilmagnanum í þjóðfélaginu. Það hef ég oft orðið var við.

Það sem mér fannst líka merkilegt hjá hv. þm. er það að hann virðist reyna að velta fyrir sér í fullri alvöru einhvers konar formúlu sem tryggir þetta. Áður fyrr höfðu menn tenginguna beinlínis við lægstu launaflokka dagvinnutaxta. Það var ýmislegt sem mælti gegn því. Það var stundum sagt að einmitt þessi tenging hefði komið í veg fyrir að hægt væri að hækka lægstu taxtana.

Hv. þm. gat um að í niðurlagsorðum þeirra ábendinga sem heilbr.- og trn. beindi til efh.- og viðskn. hefði verið fólgin hvatning til efh.- og viðskn. um að kanna hvort ekki væri betra að haga ákvæðum frv. í takt við tillögur sem stjórnarandstaðan hefur flutt og ýmsar hugmyndir sem hún hefur reifað bæði nú og áður. Hv. þm. kom með fullkomlega gild rök fyrir því að e.t.v. væri varhugavert að endurvekja tenginguna milli bótaþróunarinnar og dagvinnutaxta. Hann sagði: Það gæti orðið til þess að Vinnuveitendasamband Íslands mundi freista þess að halda niðri þessum vinnutöxtum. Við höfum reynsluna af því. Það var nákvæmlega það sem gerðist þannig að hv. þm. virðist algerlega skilja eðli Vinnuveitendasambandsins í þeim stéttaátökum sem hafa oft orðið einmitt í tengslum við þetta.

Hann sagði líka að út af fyrir sig væri hættulegt að fara þá leið að flytja með þessum hætti ákvörðun bótanna út í bæ. Ég er sammála hv. þm. Þetta er skynsamlega mælt. Það sem mér fannst hins vegar skipta mestu máli í því sem hv. þm. sagði í stuttu andsvari var mikilvæg yfirlýsing þar sem hann sagði að með þeirri formúlu sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fyrir þingið og efh.- og viðskn. blessaði í bak og fyrir, þá sé verið að leitast við að kaupmáttur bótanna lækki ekki. Ég er algerlega sammála þessu markmiði en það má auðvitað spyrja sjálfan sig, af hverju eru menn að leitast við það? Af hverju tryggja þeir það ekki með beinum hætti? Af hverju setja þeir ekki einfaldlega inn þarna orðið ,,launavísitala``?

Hann sagði líka að stefnt væri að því, herra forseti, og ég skrifaði orðrétt eftir honum að stefnt væri að því að hækka kaupmátt bóta og að hann endurspegli almenna launaþróun í þjóðfélaginu. Þá spyr ég hv. þm.: Hvernig ætlar hann að koma því svo fyrir að þessi ætlan hans gangi upp þegar launaskrið verður í þjóðfélaginu? Vegna þess að launaskrið fellur undir skilgreininguna á almennri launaþróun. Ég sé ekki að þetta ákvæði eins og það stendur núna frá efh.- og viðskn. tryggi að bæturnar hækki í takt við launaskrið í landinu.

[12:00]

Við vitum, eins og ríkisstjórnin hefur margsinnis bent á með réttu, að það er góðæri í landinu. Það kann vel að vera að sú hagsveifla sem við höfum notið síðustu missirin muni ekki halda áfram að rísa en það er flest sem bendir til þess að það muni vera árgæska á næstunni. Við vitum líka hvað það þýðir. Það þýðir það jafnan að einhvers konar launaskrið verður en ef launaskrið verður og ef hv. þm. Vilhjálmur Egilsson sem talar fyrir munn ríkisstjórnarinnar ætlar að sjá til þess að þetta launaskrið nái líka inn í bætur almannatryggingakerfisins, þá spyr ég hann: Hvernig ætlar hann að tryggja það? Ég hef hans góða vilja og vafalaust góðan vilja fleiri stjórnarliða en ég hef ekki aðra tryggingu fyrir því. Ég hef að vísu orð forsrh. sem hefur lýst því yfir að hækka eigi bætur almannatryggingakerfisins í takt við launaþróun í landinu, ég skildi orð hans þannig. Ég man ekki hvernig þau voru nákvæmlega sögð en ég skildi orð hans þannig að um væri að ræða að taka upp tengingu við launavísitölu. Það skiptir í sjálfu sér ekki máli hvað forsrh. sagði. Það sem skiptir máli er það sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson sagði að stefnt væri að því að hækka kaupmátt bóta og stefnt yrði að því að hann endurspegli almenna launaþróun í þjóðfélaginu. Hvað er hv. þm. Vilhjálmur Egilsson að segja? Hann er að segja að það sé stefna stjórnvalda að bætur almannatryggingakerfisins endurspegli líka launaskrið í þjóðfélaginu. Mér finnst það sanngjarnt? Hvers vegna? Vegna þess að mér finnst sanngjarnt að þegar velsæld almennings í landinu eykst þá speglist sú aukning líka hjá þeim sem hafa framfæri sitt aðallega af bótum almannatryggingakerfisins. Í því er fólgin sanngirni. Menn geta auðvitað deilt um hvort það sé fyllilega réttlætanlegt. Ég er þeirrar skoðunar að svo sé, en það kemur mér svolítið á óvart --- ég vona að hv. þm. misvirði það ekki við mig hversu vel og dyggilega hann tekur undir þetta. En á hinn bóginn segir hv. þm. líka rétt í þann mund og hann er búinn að lýsa þessu yfir, og bendir á sem er ábyggilega rétt hjá honum að tæknilegir annmarkar hafi verið á þeirri útfærslu sem við lögðum til og ég geri ekkert veður út af því. Ég er viss um að hv. þm. hefur meira vit á því en ég. Ég treysti því fullkomlega að svo sé. En hann sagði að þarna hefðu menn sett niður ákveðna formúlu og rétt væri að við sæjum hvernig formúlan gengi upp og hvort kaupmáttur bótanna þróist ekki svipað og launin.

Herra forseti. Hvað þýðir þetta? Það þýðir að fyrst kemur hv. þm. og segir að hann vilji að bótaþróunin endurspegli launaþróun í landinu en síðan kemur hann og segir að formúlan sem hann hafi sett niður sé ákveðin tilraun. Hvers vegna erum við að setja upp einhverja tilraunastarfsemi, herra forseti, í tengslum við þetta? Af hverjum neglum við þetta bara ekki fast niður í þessu ákvæði? Það hefði verið hreinlegast. Þá hefði ég verið glaður, bótaþegarnir hefðu verið glaðir en líklegast hefði hv. þm. Vilhjálmur Egilsson orðið glaðastur vegna þess að þá hefði hann tryggingu fyrir því að það sem hann vill verði framkvæmt.

Almennt vil ég segja um þann kafla bandormsins sem vélar um þær greinar sem tengjast lögunum um almannatryggingar að ég hefði kosið að sjá þetta öðruvísi. Ég hefði kosið að sjá t.d. fyrri hluta tillögunnar sem minni hluti heilbr.- og trn. sendi frá sér til efh.- og viðskn. verða að lögum. Ég tel --- hv. þm. getur reynt að sannfæra mig um annað og eins og ég hef sýnt honum áður þá tek ég rökum --- að með fyrri hlutanum í þeirri grein væri algerlega tryggt að bótaþróunin yrði í takt við launavísitölu Hagstofu Íslands og það sem er mikilvægara er að þær fjárhæðir, sem fjallað er um í 17. gr. almannatryggingalaganna og varða m.a. frítekjumarkið sem er mjög mikilvægt fyrir bótaþega, taki mið af því líka. Með öðrum orðum, það væri fullkomlega tryggt að bætur kerfisins mundu hækka nákvæmlega í takt við launaþróunina.

Hæstv. forsrh. talaði í þá veru að ég taldi að skammlaust yrði frá því gengið af hálfu stjórnarflokkanna að þetta yrði bundið í lög. Nú blasir við að það er ekki gengið tryggilega frá því og það liggur líka fyrir að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, sem er manna spakastur þegar verið er að véla um hin efnahagslegu vísindi, er heldur ekki alveg viss um að það gangi eftir. Því segi ég það, herra forseti? Vegna þess að í seinna andsvari sínu áðan við hv. þm. Svavar Gestsson, þá viðurkenndi hann fúslega að hann væri ekki algerlega viss um niðurstöðuna. Hann sagði, ekki með hans orðum en ég túlka þau svo, að hér væri um ákveðna tilraunastarfsemi að ræða. Við skulum sjá, sagði hv. þm. efnislega, hvort þetta gengur ekki upp. Ég velti því þess vegna fyrir mér hvernig í ósköpunum standi á því að þetta er ekki tekið upp í greinina, hvers vegna yfirlýsingum hæstv. forsrh. er ekki breytt í lögfræðilegan texta sem við getum rætt og samþykkt að umræðum loknum. Það varð ekki niðurstaðan í nefndinni. Ég held þess vegna að farsælt verði úr því sem komið er að fara þá leið að munum athuga hvernig niðurstaðan af þessari grein verður og það er alveg klárt að það sem hv. þm. Svavar Gestsson sagði áðan, því verður hrint til fullnustu ef það gerist að bætur kerfisins þróist ekki með þeim hætti sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson vill. Þá er auðvitað ekki um neitt annað að ræða fyrir stjórnarandstöðuna en beita sér fyrir því á komandi ári að breyta lögunum í þá veru. En þá verður hv. þm. Vilhjálmur Egilsson líka að standa frammi fyrir því að hann hefur lýst yfir afdráttarlausum vilja sínum. Ég fagna því og ég tel að þessi yfirlýsing hv. þm. sé mjög mikilvæg en ég spyr hv. þm.: Ef hann er þeirrar skoðunar að bótaþróunin eigi að endurspegla almenna launaþróun í landinu, þar af leiðandi launaskrið líka, hvernig ætlar hann að sjá til þess?