Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 12:09:38 (2747)

1997-12-19 12:09:38# 122. lþ. 49.10 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv. 130/1997, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[12:09]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson talar af vissu þess sem valdið hefur. Hann segir að ef launaskrið mælist á einhverju sem hann kallar tiltölulega rúmu tímabili, þá hljóti það að endurspeglast í bótaþróuninni. Ég dreg ekki í efa vilja hv. þm. en ég dreg í efa vald hans til þess að sjá til þess. Núna hefur hann valdið. Hann er formaður efh.- og viðskn. og stýrir þar meiri hluta að sinni vild að ég hygg. Hann getur núna ofið þessa tryggingu í lagatexta sem hægt er að samþykkja. Þá þarf hann ekki að vona að það hljóti að gerast, þá hefur hann trygginguna fyrir því.

Hv. þm. sagði að menn ættu ekki að vekja væntingar og ekki falskar vonir. Ja, heyr á endemi. Ekki hefur það verið stjórnarandstaðan sem hefur komið hingað og heimtað --- þangað til núna. Það hefur ekki verið stjórnarandstaðan sem hefur komið og heimtað að launaskriðið yrði líka tengt með þeim hætti sem við höfum verið að reifa við bótakerfið. Það er hv. þm. Vilhjálmur Egilsson sem hefur vakið upp þær væntingar vegna þess að hann kom hingað áðan og lýsti því yfir að hann teldi að stefna ætti að því að þróun kaupmáttar bóta almannatryggingakerfisins endurspeglaði almenna launaþróun. Í því felst að hann er að lýsa þeim væntingum sínum og þar með að vekja þær líka hjá bótaþegum að launaskriðið í þjóðfélaginu muni líka endurspeglast í kaupmáttarþróun bótanna.

Hv. þm. tilheyrir þeim flokki sem hefur flokka harðast gengið fram í því að lýsa þeirri gullnu framtíð sem blasir við Íslendingum á næsta ári. Flokkur hans hefur útmálað það með fögrum litum að við séum nú stödd í miðju góðæri sem muni halda áfram að aukast, en við vitum hvað gerist alltaf í góðæri. Það verður launaskrið vegna þess að meiri eftirspurn verður eftir vinnuafli, þá verður alltaf launaskrið. Þess vegna getum við talið að miklar líkur séu á því að svo verði og þess vegna spyr ég: Af hverju notar hann ekki tækifærið meðan hann hefur valdið sem formaður efh.- og viðskn. til að tryggja bótaþegum almannatryggingakerfisins nákvæmlega það sem hann var að lýsa áðan að hann vildi stefna að?