Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 12:22:46 (2751)

1997-12-19 12:22:46# 122. lþ. 49.10 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv. 130/1997, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[12:22]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Það sem er að gerast er þetta: Í fyrsta lagi er verið að segja að kaupmáttur elli- og örorkulífeyris minnkar ekki frá því sem hann er í dag og það er verið að binda það við taxta þannig að það sem hv. þm. hrakyrti áðan er hann að gera sjálfur með annarri hendinni með þróun neysluvöruverðs sem er vísitala sem hann er að binda sig í og ég óska honum til hamingju með það.

Í öðru lagi er verið að lýsa því yfir að þetta er nákvæmlega svona vegna þess að það er minnt á neysluvöruvísitöluna í frumvarpstextanum þannig að þetta gólf er til. Ef eitthvert hik er á stjórnarflokkunum í þessu efni verður að flytja brtt. Ef hv. þm. er að draga til baka orð hæstv. forsrh. verður að flytja brtt. Þá er málið í stórkostlegri hættu. Ef jafn\-áhrifamikill þingmaður og 3. þm. Vestf., með fullri virðingu fyrir öllum hinum, lítur svona á málið verður að flytja brtt., þá verður að fara að semja um þetta mál áður en þinginu lýkur núna fyrir jólin vegna þess að það er úrslitaatriði að þetta sé algerlega skýrt. Ég skil málið svona. Það er verið að setja gólf um kjörin hjá elli- og örorkulífeyrisbótaþegum og að kaupmáttur þeirra bóta lækki ekki frá því sem er í dag. Ágreiningurinn í þessum sal snýst bara um það hvort binda á uppsveifluna í vísitölu eða ekki. Þannig skil ég það. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að tryggja að elli- og örorkulífeyrisbótaþegar fái líka tryggt í uppsveiflunni í kjörum sínum hvað þeir fá með því að binda það t.d. í vísitölu en stjórnarflokkarnir vilja það ekki. Ég tel að ágreiningurinn liggi þarna. Er það ekki rétt, hv. þm.?