Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 12:44:23 (2767)

1997-12-19 12:44:23# 122. lþ. 49.10 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv. 130/1997, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[12:44]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Hér hafa farið fram talsverðar umræður, m.a. um málefni fatlaðra. Hér hefur verið deilt á að framlag til Framkvæmdasjóðs fatlaðra hafi lækkað. Það er að vísu rétt að sú merking hefur lækkað en nú fer framkvæmdasjóðurinn að langmestu leyti til framkvæmda en ekki til rekstrar eins og áður var, rekstrarpeningarnir eru teknir annars staðar. Málaflokkurinn málefni fatlaðra hefur aldrei fengið meira, hvorki að upphæð né raungildi, en hann fær á fjárlögum næsta árs. Til málaflokksins fara yfir 2.700 millj. og það hækkar hátt í hálfan milljarð til málaflokksins frá fjárlögum 1997 til fjárlaga 1998. Hækkunin er nærri 18% og raunhækkun er tæp 8% til málaflokks fatlaðra.

[12:45]

Menn hafa talað um yfirfærslu á málefnum fatlaðra. Ég minni á að búið er að færa málefni fatlaðra á Norðurl. e. til sveitarfélaganna, á Hornafirði og í Vestmannaeyjum og gengur alls staðar vel. Grunnskólayfirfærslan tókst vel, ríkið hefur staðið við sitt. Ríkið lagði fjármagn með grunnskólayfirfærslunni til rekstrar eins og hann var síðasta árið hjá ríkinu auk viðbótar vegna fjölgunar skóladaga og lengingu skóladags, ákvæða sem fest voru í grunnskólalögum. Þar að auki vegna launahækkunar í kjarasamningum 1995 og fyrir líklegri meðalhækkun launa 1997. Ef kennaralaun hefðu hækkað hliðstætt við aðrar stéttir þá hefði þetta verið borið uppi af því sem frá ríkinu kom. Útsvarsprósentan hækkaði úr 9,20% í 11,98 og hækkar nú um áramótin í 12,04%. Og það er rétt að hafa það í huga að talsvert meira en 2/3 hlutar af staðgreiðslunni rennur nú til sveitarfélaga.

Hér hafa menn rætt um 9. gr., þá tengingu sem þar er sett inn. Í henni segir, herra forseti:

,,Ákvörðun þeirra [þ.e. bótanna] skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.``

Í þessu felst ekkert annað en tvöföld tenging. Í fyrsta lagi hækka bæturnar hliðstætt launum og í öðru lagi skal það þó aldrei vera minna en verðlag samkvæmt vísitölu, þ.e. ef verðlagið hækkar meira en launaþróunin segir til um, þá skulu bæturnar hækka fram úr launaþróuninni. Atvinnuleysisbætur eru ekki vísitölutengdar með þessum hætti en þær munu að sjálfsögðu hækka með hliðsjón af launaþróun í landinu.

Hér var spurt um jólabónus. Það mál er í athugun hjá ríkislögmanni eða var það þegar ég vissi seinast og ríkisstjórnin hefur ekki tekið afstöðu til þess.

Varðandi atvinnuleysið þá er rétt að það komi fram að atvinnuleysi hefur aldrei verið minna í nóvember síðan 1991 en það var í þessum mánuði. Sem betur fer er atvinnuleysið í hraðri rénun. Það er prósenti minna en það var í nóvember í fyrra og nú eru einungis 2,3% eða svo án allrar vinnu. Þar að auki eru á hlutabótum um þúsund manns, og það vantar alls staðar fólk. Í nóvember gáfum við út 128 ný atvinnuleyfi til útlendinga utan Evrópska efnahagssvæðisins. Ég veit ekki hvað margt fólk frá Evrópska efnahagssvæðinu er komið hingað til vinnu sem ekki þarf atvinnuleyfi frá okkur. Frá áramótum höfum við veitt um 1.500 atvinnuleyfi og víða eru laus störf og vantar fólk hvarvetna í þjóðfélaginu, ekki síst í Reykjavík. Allt ber þetta vott um batnandi efnahag og kannski eru gleðilegustu dæmin þau að verulega dregur úr vanskilum hjá Húsnæðisstofnun. Ásóknin í fjárhagsaðstoð hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkur hefur stórminnkað, var 10 millj. minni núna í nóvember en í nóvember í fyrra. Ráðgjafarstofan um fjármál heimilanna hefur aðstoðað á annað þúsund manns og þeir sem nú koma til Ráðgjafarstofunnar eru ekki eins illa settir og þeir sem komu fyrst. Það er rétt að minna á að straumur fólks til og frá landinu hefur snúist við. Á þessu ári flytja talsvert fleiri til landsins heldur en frá því.

Við búum við hagstæðan flutningsjöfnuð. Á grundvelli nýrrar löggjafar náðust farsælir kjarasamningar sem eiga að skila þjóðinni kaupmáttaraukningu sem er langtum meiri en nokkurs staðar þekkist í kringum okkar. Þjóðhagsstofnun spáir því að kaupmáttaraukningin 1995--2000 verði 25%.