Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 12:51:33 (2768)

1997-12-19 12:51:33# 122. lþ. 49.10 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv. 130/1997, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[12:51]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er mikilvægt að fá skýringar hæstv. félmrh. á 9. gr. Þetta er stjfrv. og menn hafa verið í nokkurri óvissu um hvernig bæri að skilja greinina. Ég held að óvissan sé nú alltaf sífellt að minnka. Hæstv. ráðherra talar réttilega um tvöfalda tryggingu og sagði að bætur almannatrygginga mundu hækka hliðstætt og laun og ef verðlag hækkar meira þá mundu bætur hækka og þá umfram laun. Þetta er alveg sami skilningur og við höfum verið að leggja í þetta orðalag, taka mið af launaþróun, kannski ekki alveg nákvæmlega sagt með sömu orðum og við gerum í áliti minni hlutans. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að menn séu að tala alveg af heiðarleika í þessu máli og ætli sér að standa við þá tengingu meira og minna út frá launavísitölu þó það sé ekki sagt berum orðum.

Hins vegar, herra forseti, er að mínu mati til vansa að ekki skyldi hafa verið farin sama leið gagnvart atvinnuleysisbótum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann er tilbúinn að gefa þá yfirlýsingu hér að atvinnuleysisbætur muni hækka, segjum næstu tvö ár, á sama hátt og bætur almannatrygginga. Nú er þetta ekki sett í lög en væri alveg ígildi þess að ráðherra beitti sér fyrir því að það gerist með sambærilegum hætti þó lög væru ekki sett. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hann er reiðubúinn til að gefa þá yfirlýsingu sem mundi vitaskuld vera réttmætt gagnvart því fólki sem þarna á í hlut.