Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 12:58:34 (2774)

1997-12-19 12:58:34# 122. lþ. 49.10 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv. 130/1997, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[12:58]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á málflutningi ráðherrans. Auðvitað fer annað til málaflokksins en framkvæmdasjóðurinn. En framkvæmdasjóðurinn er grunnurinn. Hann er grunnurinn að framkvæmdum fyrir búsetuúrræði og þar birtist stefnumörkunin um það hvað ríkisstjórnin ætlar að gera. Ég vísa því sem hæstv. ráðherra segir um ábyrgðarleysi til föðurhúsanna. Félmn. benti strax, fyrir fimm árum þegar lögin um málaflokk fatlaðra voru endurskoðuð, á stöðuna á Kópavogshæli og að íbúarnir þar mundu ekki fá þjónustu samkvæmt lögunum. Þá þegar var byrjað að vinna að undirbúningi þessa. Auðvitað er ekki hægt að framkvæma eða gera neitt þegar maður setur ekki peninga í framkvæmdasjóðinn.

Um það að hafa tekið við biðlistum þá er búið að gera gífurlega mikið á u.þ.b. liðnum áratug í málaflokki fatlaðra en það er engan veginn búið að ljúka biðlistum en það mátti ekki hægja á með þeim hætti sem þessi ríkisstjórn hefur gert og sú ríkisstjórn sem tekur við mun taka við erfiðu búi og erfiðum verkefnum eftir þetta.